Kirkjustræti 4 í Reykjavík

Við Kirkjustræti 4 stendur rismikið timburhús sem Skúli Thoroddsen (1859-1916) alþingismaður og ritstjóri byggði við Vonarstræti 12 árið 1908. Þar bjó Skúli með konu sinni Theódóru Thoroddsen (1863-1954) skáldkonu og börnum þeirra þar til hann lést árið 1916 en Theódóra bjó áfram í húsinu til ársins 1930. Um tíma rak Guðmundur Thoroddsen læknir, sonur Skúla og Theódóru, lækningastofu sína í húsinu. Árið 2010 var húsið flutt á núverandi stað við Kirkjustræti.

Zuggersbær

Á 18. öld stóð hér torfbær sem notaður var sem smiðja á vegum Innréttinganna. Árið 1791 keypti Jóhannes Zoëga (kallaður Zugger), fangavörður í tugthúsinu við Arnarhól og ættfaðir Zoëganna, smiðjuna og breytti henni í íbúðarhús. Var bærinn eftir það kallaður Zuggersbær.

Þerneyjarhús

Árið 1847 reisti Jóhannes Zoëga yngri timburhús á lóðinni og þar bjó sonur hans Geir Zoëga með móður sinni þar til hann kvæntist fyrri konu sinni Guðrúnu Sveinsdóttur, ekkju æskuvinar síns Kristjáns Þorsteinssonar kaupmanns, árið 1860. Árið 1874 keypti Sigurður Arason úr Þerney á Kollafirði húsið og var það eftir það kallað Þerneyjarhús. Ekkja hans og dætur ráku matsölu í húsinu um tíma. Húsið var rifið 1897.

Tjarnarlundur

Veitingastaðurinn Tjarnarlundur var opnaður hér árið 1947 en á gamlárskvöld sama ár eyðilagðist húsið í eldsvoða sem átti upptök sín í Kirkjustræti 6. Árið 1954 reisti Kvenfélag Keflavíkur samkomuhús í Keflavík sem fékk nafnið Tjarnarlundur.

Smella hér til að skoða götumynd á Google.com.

Skildu eftir svar