Camp Knox

Braggahverfi (kampar)

í seinni heimstyrjöldinni byggðu Bretar og Bandaríkjamenn mikinn fjölda bragga eða  hermannaskála víðs vegar um landið til að hýsa þann mikla fjölda hermanna sem hingað kom á stríðsárunum. Þessir skálar mynduðu oftast þyrpingar eða hverfi sem kölluð voru kampar (camps). Í Reykjavík einni risu um 80 braggahverfi með yfir 5000 bröggum. Braggarnir litu út eins og hálfar tunnur úr bárujárni með hurð og tveimur gluggum á öðrum gaflinum, stundum með bíslagi fyrir forstofu. Bárujárnið var fest á grind úr hálfhringlaga burðarbitum sem oftast voru steyptir ofan í tunnu eða bensínbrúsa. Oft var steypt gólf í skálunum en einnig var algengt að þeir væru með timburgólfi. Braggarnir voru illa einangraðir og því oft bæði rakir og kaldir. Til voru nokkrar tegundir af bröggum og voru þeir einnig misstórir. Samtals urðu braggarnir um 6000 talsins á Reykjavíkursvæðinu.

Stærsti kampurinn í Reykjavík, Camp Knox, stóð á svæðinu milli Kaplaskjólsvegar og Hofsvallagötu þar sem Hagamelur og Grenimelur eru í dag. Fyrir utan að vera svefnstaður hermanna þá reis í Camp Knox kvikmyndahús, þvottahús, keilusalur, rakastofa og margvísleg önnur þjónusta. Höfuðstöðvar bandaríska setuliðsins voru staðsettar í Camp Knox á stríðsárunum.

Húsnæðisúrræði eftir stríð

Eftir stríðið stóðu borgaryfirvöld frammi fyrir mikilli húsnæðiseklu, meðal annars vegna fólksfjölgunar og vaxandi fólksflutninga af landsbyggðinni til Reykjavíkur. Ein af þeim aðgerðum sem borgaryfirvöld gripu til var að kaupa bragga af Bandaríkjamönnum til að leigja efnalitlu fólki en litið var á þessa ráðstöfun sem skammtímalausn í húsnæðismálum borgarinnar. Raunin varð hins vegar sú að braggalausnin varð mun lífsseigari en til stóð. Í september 1944 bjuggu um 800 Reykvíkingar í bröggum en árið 1955 bjuggu 2300 bæjarbúar í 543 bröggum. Árið 1947 keyptu borgaryfirvöld t.d. Camp Knox af Bandaríkjamönnum fyrir 415 þúsund krónur. Taldi Camp Knox þá 165 skála, stóra og smáa. Braggarnir í Camp Knox voru notaðir undir leiguhúsnæði allt til ársins 1966.

Undir bárujárnsboga

Árið 2000 kom út bókin Undir bárujárnsboga – braggalíf í Reykjavík 1940-1970 eftir Eggert Þór Bernharðsson sagnfræðing. Í bókinni er að finna miklar upplýsingar um lífið í bröggunum og þróun braggabyggðar í Reykjavík.

Skildu eftir svar