Grundarstígur 10 í Reykjavík

Steinhúsum fjölgar í Reykjavík

Hannes Þ. Hafstein (1861-1922), þáverandi bankastjóri, byggði húsið á Grundarstíg 10 eftir brunann mikla 1915 þegar Hótel Reykjavík og 11 önnur hús brunnu til kaldra kola í miðbæ Reykjavíkur. Hannes var einn af þeim fyrstu sem komu að brunanum en hann snæddi kvöldverð hjá Eggerti Briem og konu hans þetta kvöld. Bruninn opnaði augu margra fyrir þeirri hættu sem timburhús sköpuðu og í kjölfar brunans voru settar verulegar skorður við byggingu timburhúsa í þéttbýli. Benedikt Jónasson (1879-1954) verkfræðingur teiknaði húsið sem þykir um margt sérstakt. Húsið er í júgend stíl með mansardþaki og miðjukvisti. Húsið er eitt af 15 fyrstu steinhúsunum í Reykjavík og er friðað. Hannes bjó í húsinu þar til hann lést þann 13. desember 1922. Valtýr Stefánsson, útgefandi og ritstjóri Morgunblaðsins, bjó um tíma í húsinu.

Hannesarholt

Þann 8. febrúar 2013 hófu eigendur hússins hér rekstur menningarstofnunarinnar Hannesarholts eftir miklar endurbætur á húsinu sem arkitektarnir Stefán Örn Stefánsson og Grétar Markússon höfðu umsjón með. Markmið stofnunarinnar er að „efla jákvæða, gagnrýna hugsun í íslensku samfélagi, auka skilning á gildi sögunnar fyrir samtímann og framtíðina og hvetja til uppbyggilegrar umræðu og samveru.“ Eigendur Hannesarholts eru hjónin Arnór Víkingsson, sonur Víkings Heiðars Arnórssonar læknis og Ragnheiður Jóna Jónsdóttir. Arnór er móðurbróðir Víkings Heiðars Ólafssonar, píanóleikara.

 

Skildu eftir svar