Austurstræti 2 (Hótel Ísland)

Á horni Aðalstrætis og Austurstrætis byggði Johani Hallberg stórhýsi þar sem hann hóf hótel- og veitingarekstur árið 1882. Á næstu árum breytti Hallberg hótelinu, sem hlaut nafnið Hótel Ísland, og byggði við það. Eftir að Hallberg seldi hótelið 1906 gekk hótelið kaupum og sölum þar til Alfreð Rosenberg eignaðist það árið 1928.

Hótel Ísland brennur

Aðfararnótt 3. febrúar 1944 kom upp eldur í geymslulofti hótelsins sem breiddist hratt út. Hótelið brann til kaldra kola á tveimur tímum og lést ungur maður í brunanum, Sveinn Steindórsson úr Hveragerði. Eðlilega óttuðust bæjarbúar að eldurinn myndi læsa sig í nærliggjandi timburhús, sem voru mörg, en vaskleg framganga slökkviliðsmanna undir styrkri stjórn Péturs Ingimundarsonar slökkviliðsstjóra er talin hafa komið í  veg fyrir stórslys í miðbænum.

Pétur Ingimundarson var faðir Ólafs Péturssonar sem dæmdur var til 20 ára refsivistar fyrir stríðsglæpi í Noregi. Talið er víst að Ólafur, sem gekk undir nafninu íslenski böðullinn í Noregi, hafi selt Leif Müller í hendur Nazista. Um fangavist Leifs í Sachsenhausen fangabúðunum má lesa í bók Garðars Sverrissonar Býr Íslendingur hér sem út kom árið 1988. Í gegnum mikinn pólitískan þrýsting komu íslensk stjórnvöld Ólafi undan réttvísinni og varð hann frjáls maður á Íslandi stuttu eftir stríð.

Hallærisplanið

Ekki var byggt aftur á lóðinni en Bifreiðastöð Steindórs, sem staðsett var norðan megin Austurstrætis, notaði lóðina lengi sem bílaplan. Síðar gekk planið undir nafninu Hallærisplan. Árið 1993 voru Hallærisplan og Steindórsplan, plönin sitt hvoru megin við Austurstræti, sameinuð í núverandi Ingólfstorg.

Skildu eftir svar