Hverfisgata 83 í Reykjavík
Fyrsta fjölbýlishúsið
Hér var fyrsta fjölbýlishúsið á Íslandi reist, Bjarnaborgin. Húsið byggði Bjarni Jónsson (1859-1915) snikkari og húsasmiður á árunum 1901-1902. Í fyrstu voru herbergi og íbúðir í húsinu leigð út en árið 1916 keypti Reykjavíkurborg húsið og fékk fátækranefnd borgarinnar húsið til umráða. Fram undir 1930 leigði nefndin efnalitlu fólki herbergi eða íbúðir í húsinu en eftir 1930 fór að draga úr þörfinni fyrir svona úrræði. Áfram var húsið þó nýtt í félagslegum tilgangi en smám saman breyttist íbúahópurinn og meira fór að bera á óreglufólki í hópi íbúa.
Iðnnemabústaður
Árið 1987 keypti byggingarfélagið Dögun húsið af Reykjavíkurborg og var húsið notað undir íbúðir fyrir iðnnema á árunum 1994-2003. Þá keyptu Félagsbústaðir hf, hlutafélag í eigu Reykjavíkurborgar, húsið. Er húsið því enn á ný nýtt sem félagslegt leiguhúsnæði á vegum Borgarinnar.
Um Bjarna Jónsson
Bjarni Jónsson var umfangsmikill athafnamaður á sínum tíma og er talið að hann hafi byggt a.m.k. 140 hús í Reykjavík. Eftir 1909 fór að halla undan fæti hjá Bjarna og lést hann 56 ára gamall eftir langvarandi veikindi, slyppur og snauður (Hrefna Róbertsdóttir og Sigríður Sigurðardóttir. Sagnir, 1. tbl. 1985).