Kirkjustræti 12 í Reykjavík (Líkn)

Fyrsta íbúðarhúsið við Kirkjustræti

Á lóð nr. 12 við Kirkjustræti, við hlið Alþingishússins, stendur þjónustuskáli Alþingis sem byggður var árið 2002. Skálinn er úr stáli, gleri og steypu og er samtengdur Alþingishúsinu á tveimur hæðum.  Áður stóð hér hús sem Christian L. Möller kaupmaður lét byggja árið 1848 úr afgangs múrsteinum frá Dómkirkunni og var það fyrsta íbúðarhúsið sem byggt var við Kirkjustrætið. Halldór Kr. Friðriksson, alþingismaður og yfirkennari við Lærða skólann, eignaðist húsið árið 1851 en árið 1882 bætti hann hæð úr timbri ofan á húsið. Þegar fundinn var staður fyrir Alþingishúsið þá var það í kálgarðinum hjá Halldóri. Halldór bjó hér til dauðadags árið 1902. Háskóli Íslands eignaðist húsið árið 1911 og nýtti það m.a. undir rannsóknastofu læknadeildar á meðan skólinn var til húsa í Alþingishúsinu. Hjúkrunarfélagið Líkn hafði síðan húsið til afnota á árunum 1941-56 og eftir það var húsið aldrei kallað annað en Líkn.  Húsið var flutt í Árbæjarsafn árið 1973.

Listamannaskálinn

Sunnan megin við Líkn var stór lóð sem á árum áður hafði verið notuð undir ýmis smáhýsi eins og móhús og kindakofa. Á stríðsárunum fékk Félag íslenskra myndlistarmanna leyfi stjórnvalda til að byggja sýningarskála á baklóðinni en myndlistarmenn höfðu ekki fram að því haft neina aðstöðu fyrir sýningarhald. Var Gunnlaugur Halldórsson arkitekt fenginn til að teikna húsið en það mátti ekki kosta mikið því byggingarleyfið var aðeins til  fimm ára. Var skálinn reistur á árunum 1942-43. Þótt skálinn hafi einkum verið hugsaður fyrir myndlistarsýningar, og var aldrei þekktur undir öðru nafni en Listamannaskálinn, var hann frá upphafi nýttur undir aðra starfsemi s.s. tónleikahald, böll og pólitíska fundi. Skálinn var loks rifinn árið 1968 en þá var þegar (1966) búið að taka fyrstu skóflustunguna að glæsilegu myndlistarhúsi á Klambratúni, Kjarvalsstöðum. Það var þó ekki fyrr en fimm árum síðar,  árið 1973, að Kjarvalsstaðir voru teknir í notun.

 

Smella hér til að skoða götumynd á google.com.

Skildu eftir svar