Langi-Hvammur í Vestmannaeyjum
Langi- Hvammur við Kirkjuveg 41 er dæmi um veglegt tómthús, en húsið var byggt 1901, og er enn að mestu í upprunalegri mynd. Tómthús voru þau hús nefnd, þar sem engin afnot af jörð fylgdu og í þeim bjuggu, a.m.k. í fyrstu svokallað þurrbúðarfólk, daglaunamenn, sem lifðu á því að selja öðrum vinnu sína, útvegsmönnum, verslunareigendum og jarðarbændum. Á Heimaey voru tómthúsin fyrr á öldum sem næst sjávarsíðunni, þar sem helst var vinnu að hafa. Eldri tómthús voru oft hlaðin grjóti á þrjá vegu með járnklæddu timburþili að framanverðu með dyrum og tveimur gluggum að svefnherbergi öðrum megin og eldhúsi hinum megin. Þessi gömlu tómthús þurftu að víkja fyrir stærri og nútímalegri húsum á 20. öldinni og götum, sem lagðar voru til mikilla samgöngubóta víða um bæinn.
*
Fljótlega á 20. öldinni fóru Eyjamenn að byggja stærri tómthús með aukinni velsæld, einkum í kjölfar vélbátaútgerðar. Langi- Hvammur er eitt þessara húsa, sem reist voru jafnvel fjær sjávarsíðunni, ofar í bænum, þar sem pláss var fyrir garðskika með kartöflugarði, þerrireit eða stakkstæði og jafnvel útikofa. Húsið byggði Eldeyjarfarinn Ágúst Gíslason, en hann byggði einnig nokkrum árum síðar eitt fyrsta steinsteypta húsið í bænum, Valhöll. Þessi stærri tómthús voru byggð úr timbri og járni og stóðu á hlaðinni, steinlímdri undirstöðu, sem þótti mikið framfaraspor. Fjöldi húsa voru byggð með þessu lagi víða í bænum snemma á 20. öldinni, en fyrstu húsin stóðu öll við Kirkjuveginn, s.s. Völlur, Grund, Dalur, Ás og Holt. Þau eru flest í dag mikið breytt frá upprunalegri mynd eða horfin.