Melshús í Reykjavík

Mynd Árni Thorsteinsson um 1900. Mynd fengin af www.torfbaeir.com

Melshús voru torfbær, eða réttara sagt bæjarþyrping, sem stóð við götuslóðann (nú Suðurgata) sem lá frá Víkurbænum við enda Aðalstrætis út í Skildinganes. Upphaflega var bærinn ein af hjáleigum Reykjavíkurbæjarins og eins og hjáleigan Melkot, sem stóð rétt sunnan við Melshús, dró bærinn nafn sitt af Skildinganessmelunum. Næstu bæir norðan við Melshús voru Skólabær (eftir 1807) og Hólakot.

Hjáleiga Víkurbæjarins

Í manntalinu 1703 er aðeins getið um einn ábúanda í Melshúsum en í manntalinu 1816 voru ábúendur orðnir 10. Eins og flest kot frá þessum tíma voru Melshús byggð af miklum vanefnum og síðustu áratugina sem húsin stóðu voru þau að hruni komin. Árið 1907 voru Melshús sem þá stóðu boðin upp til niðurrifs og voru aðeins gefnar tvær vikur til að fjarlæga húsin. Nú er svæðið þar sem Melshús stóðu komin undir Hólavallakirkjugarð.

Þekktir íbúar
Bjarni Matthíasson

Margir þekktir Íslendingar fæddust eða bjuggu í Melshúsum. Jón Guðmundsson, ritstjóri Þjóðólfs og fulltrúi Íslands á stjórnlagaþingi Dana 1848-1849, fæddist hér árið 1807. Bjarni Matthíasson (1845-1936), dómkirkjuhringjari, bjó um tíma í Melshúsum en þegar þau voru rifin í upphafi 20. aldar flutti hann í nýtt hús í Garðastræti 49 sem einnig fékk nafnið Melshús en gekk jafnan undir nafninu hringjarahúsið. Bjarni hringdi dómkirkjuklukkunum við messu þegar Kristján IX konungur kom hingað með stjórnarskrána árið 1874 og einnig við jarðarför frænda síns Jóns Sigurðssonar forseta. Í 44 ár klifraði Bjarni upp þær 72 tröppur sem þurfti til að hringja klukkunum í Dómkirkjunni. Þá bjó Árni prófastur Þórarinsson um tíma hjá móður sinni í Melshúsum.

Lesefni: www.torfbaeir.com

Skildu eftir svar