Reynir í Vestmannaeyjum

Bræðurnir Kristinn (1897- 1959) og Jóhann Gunnar (1902- 1979) Ólafssynir voru kenndir við æskuheimili sitt, húsið Reyni, sem stóð við Bárugötu 5 allt fram að lokum 8. áratugarins, þegar það var rifið. Á rústum þess er nú bílastæði á horni Bárugötu og Miðstrætis. Þeir bræður eru einu bræðurnir, sem gegnt hafa stöðu bæjarstjóra í Vestmannaeyjum, en Kristinn var kjörinn fyrsti bæjarstjóri í bænum í almennri kosningu 1924. Var það í fyrsta og eina skipti sem bæjarstjóri var kosinn á þann hátt. Kristinn var liðtækur knattspyrnumaður og hafði fjórum árum áður verið í liði Eyjamanna, sem tók þátt í Íslandsmótinu 1920. Var það öðru sinni, sem þeir tóku þátt í Íslandsmóti í knattspyrnu.
Jóhann Gunnar tók svo við embættinu 1928 í kjölfar bróður síns og gegndi því til 1938. Hann stundaði jafnframt fræðimennsku á ævi sinni og skrifaði ýmislegt úr sögu Eyjanna, m.a. bók um hafnargerð í Vestmannaeyjum á fyrstu áratugum 20. aldarinnar, ritaði í árbækur Hins íslenska fornleifafélags og Ferðafélags Íslands og tók saman Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum, 1. og 2. hluta, sem gefnar voru út 1938- 1939 og 1966.

Sparisjóður Vestmannaeyja var til húsa í Reyni í einu herbergi fyrstu tvö starfsár sín frá 1943- 1945.

Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is

Skildu eftir svar