Skálholtsstígur 7 (Næpan)

Mynd ESSBALD

Á horni Skálholtsstígs og Þingholtsstrætis stendur glæsilegt tveggja hæða 500 fermetra timburhús með rishæð og steyptum kjallara. Magnús Stephensen (1836-1917), þriðji og síðast landshöfðinginn á Íslandi (hinir voru Hilmar Finsen og Bergur Thorberg), lét reisa húsið sem íbúðarhús árið 1903 og bjó hann í húsinu frá árinu 1904 til dauðadags 1917. Hönnuðar hússins er ekki getið í heimildum en húsameistari var Magnús Th. S. Blöndahl húsasmiður, útgerðarmaður og þingmaður. Eftir dauða Magnúsar Stephensen bjuggu ekkja hans og dætur áfram í húsinu. Í fyrstu gekk húsið undir nafninu Landshöfðingjahúsið en smám saman náði nafnið „Næpan“ yfirhöndinni eftir hinum sérkennilega turni þess. Á svölunum umhverfis turninn stundaði landshöfðinginn fyrrverandi stjörnufræðiathuganir með hjálp forláta stjörnukíkis sem hann átti en hann var mikill áhugamaður um stjörnufræði.

Fjölnota hús
Magnús Stephensen landshöfðingi

Eins og með svo mörg stór hús í Reykjavík á fyrri hluta 20. aldar þá var húsið á Skálholtssstíg 7 í áratugi notað sem leiguhúsnæði fyrir einstaklinga, fjölskyldur og félagasamtök. Hér bjó fólk eins og séra Árni Sigurðsson fríkirkjuprestur, Hólmfríður Árnadóttir kennari og Jón Á. Gissurarson kennari og skólastjóri, svo dæmi séu tekin. Þá leigðu hér félagasamtök eins og Barnavinafélagið Sumargjöf, Kvenréttindafélag Íslands og Menningar og minningarsjóður kvenna. Einna þekktast var þó húsið fyrir matsölu sem Náttúrulækningafélag Íslands opnaði hér árið 1944 en það var fyrsta matstofan á Íslandi sem sérhæfði sig í grænmetisfæði. Margir þekktir Íslendingar voru fastagestir á matstofunni og má þar fremstan nefna stórskáldið Stein Steinarr.

Menningarhús

Árið 1959 keypti Menntamálaráð Íslands húsið með það í huga að reisa stórhýsi á lóðinni þegar fram liðu stundir. Ekkert varð úr þeim áformum og eignaði Menningarsjóður húsið árið 1969. Á 7. og 8. áratug síðustu aldar fluttu ýmsar menningarstofnanir í húsið, þ. á m. Menntamálaráð, Tímarit  Menningarsjóðs og Þjóðvinafélagsins, Andvari og Bókaútgáfa Menningarsjóðs. Á þessum árum varð Orðabók Menningarsjóðs til í húsinu í samstarfi Helga Sæmundssonar (1920-2004) ritstjóra, Árna Böðvarssonar (1924-1992) íslenskufræðings og ritstjóra og Bjarna frá Hofteigi (1922-1968) blaðamanns og starfsmanns Orðabókarinnar.

Innrás útrásarvíkinganna

Árið 1998 keypti auglýsingastofan Mátturinn og dýrðin húsið. Næstu árin keyptu nýríkir athafnamenn mörg af virðulegustu og sögufrægustu húsum bæjarins. Í sumum tilvikum lögðu þessi aðilar mikið fé í endurbætur á húsunum og átti það m.a. við um Guðjón í Oz sem keypti jarðhæð og kjallara hússins af hjónunum Baltasar Kormáki og Lilju Pálmadóttur árið 2007 en fyrir átti hann eftri hæðina og risið. Lét Guðjón endurhanna allt innra byrði hússins en ytra byrði hússins var friðað af menntamálaráðherra 19. apríl árið 1991.

Smella hér til að skoða götumynd á google.com

Skildu eftir svar