Þingholtsstræti 11 í Reykjavík

Þetta hús byggði Helgi Helgason (1848-1922), trésmiður og tónskáld, árið 1870. Helgi ólst upp í Þingholtsstræti 9 í húsi sem faðir hans Helgi Jónsson snikkari byggði árið 1846. Helgi var alla tíð með mörg járn í eldinum og stundaði m.a. skipa- og brúarsmíði og verslunarrekstur en það sem hans verður líklega einkum minnst fyrir eru húsin sem hann hannaði og reisti í Reykjavík og tónlistina sem hann samdi og flutti. Hann nam tónfræði og hljóðfæraleik í Kaupmannahöfn og þegar heim kom stofnaði hann fyrstu hljómsveitina á Íslandi, Lúðraþeytarafélag Reykjavíkur. Meðal tónverka sem Helgi samdi og hljómsveitin flutti var hið sívinsæla lag Öxar við ána. Í einni af ferðum sínum til útlanda smitaðist Helgi af mislingum sem urðu 150 manns að bana í Reykjavík en alls veiktust á tólfta hundrað manns af veikinni árið 1882. Hús sem Helgi hannaði og reisti voru m.a. Þingholtsstræti 27 (Farsótt), Þingholtsstræti 12, Ingólfsstræti 9 (Amtmannshúsið) og Thorvaldsensstræti 2. Hannes Hafstein, þá ritari landshöfðingja, bjó í húsinu á árunum 1890-1893. Einnig bjó kvenréttindakonan Bríet Bjarnhéðinsdóttir (1856-1940) í húsinu um tíma.

Heimild: Páll Líndal. Reykjavík – sögustaður við Sund, 3ja bindi.

 

Smella hér til að skoða götumynd á google maps

 

Skildu eftir svar