Þingholtsstræti 18

Á lóð númer 18 við Þingholtsstræti stendur hús sem Davíð S. Jónsson heildsali gaf Menntaskólanum í Reykjavík árið 1996 til minningar um eiginkonu sína Elísabetu Sveinsdóttur (sjá grein). Húsið var byggt laust fyrir 1970 en árið 2012 voru gerðar miklar breytingar á húsinu sem vöktu sterk viðbrögð eigenda í nærliggjandi húsum. Kvörtuðu íbúarnir yfir því að búið væri að breyta húsinu í stærðarinnar spegil sem gæfi öðrum íbúum götunnar færi á að fylgjast með ferðum þeirra innanhúss og utan. Kærðu íbúarnir  ákvörðun byggingafulltrúans í Reykjavík að heimila klæðninguna til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem hafnaði því þann 28. janúar 2016 að ógilda ákvörðun byggingafulltrúa.

Vagga kvenfrelsisbaráttunnar

Hús Bríetar og Valdimars við Þingholtsstræti

Árið 1891 keypti Valdimar Ásmundsson (1852-1902), ritstjóri Fjallkonunnar, hús sem stóð hér á lóðinni. Eiginkona Valdimars var Bríet Bjarnhéðinsdóttir (1856-1940), ein mesta baráttukona fyrir réttindum kvenna á Íslandi í lok 19. aldar og við upphaf 20. aldar. Þann 27. janúar árið 1907 komu 15 konur saman hér á heimili hennar og Valdimars og stofnuðu Kvenréttindafélag Íslands en áður hafði Bríet bæði komið að stofnun Hins íslenska kvenfélags og útgáfu Kvennablaðsins. Gegndi Bríet formennsku í félaginu um tveggja áratuga skeið en félagið hafði aðsetur í húsinu mun lengur eða allt til ársins 1948. Bríet og Valdimar eignuðust tvö börn, Laufeyju (1890-1945) og Héðin (1892-1948). Börnin voru aðeins 10 og 12 ára gömul þegar Valdimar lést en Bríet bjó áfram í húsinu með börnum sínum. Laufey varð fyrsta konan til að ljúka stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1910 og síðar gegndi hún, eins og móðir hennar hafði gert, formennsku í Kvenréttindafélagi Íslands. Héðinn var forstjóri Olíuverslunar Íslands, formaður Verkamannafélagsins Dagsbrúnar og þingmaður Alþýðuflokksins.

Minnisvarði um Bríeti

Þann 7. nóvember 2007 var afhjúpaður minnisvarði um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur á horni Þingholtstrætis og Amtmannsstígs. Höfundur verksins er Ólöf Nordal.

 

 

Skildu eftir svar