Bergþórshvoll í Vestur-Landeyjum

Málverk Sigurjóns Jóhannssonar af Njálsbrennu

Bergþórshvoll er bær í Vestur-Landeyjum þar sem talið er að Njáll Þorgeirsson og kona hans Bergþóra Skarphéðinsdóttir hafi búið undir lok 10. aldar og byrjun 11. aldar. Njáll var lögspekingur mikill, vitur og ráðagóður. Hann var faðir bræðranna Skarphéðins, Gríms og Helga. Njáll og Gunnar á Hlíðarenda voru mikil vinir þrátt fyrir nokkurn aldursmun og breytti fjandskapur eiginkvenna þeirra, Hallgerðar og Bergþóru, engu um vinskap þeirra. Njáll og Bergþóra létu bæði lífið í Njálsbrennu með sonum sínum þrátt fyrir að forsprakki brennumanna, Flosi Þórðarson frá Svínafelli, hafi boðið þeim hjónum útgöngu.

Fornleifarannsóknir

Fræðimenn hafa lengi leitað minja um Njálsbrennu en afraksturinn hefur enn sem komið er ekki þótt ótvíræður. Fundist hafa fornar minjar á nokkrum stöðum á jörðinni en ekki er talið að bær Njáls hafi fundist þótt fundist hafi brunnar rústir af fornu fjósi og hlöðu.

Sögusetur á Hvolsvelli

Á Hvolsvelli hefur verið rekið sögusetur frá árinu 1997 með sérstakri áherslu á Njáls sögu og atburði henni tengdri. Þar er m.a. að finna Njálsstofu og söguskála sem talinn er áreiðanleg endurgerð af fornu langhúsi.

Skildu eftir svar