Eiríksstaðir í Haukadal
Eiríksstaðir í Haukadal eru fornar rústir í landi Stóra-Vatnshorns. Það er trú manna að rústirnar séu hinn forni bær Eiríks rauða sem fjallað er um í Landnámu og Eiríks sögu rauða. Samkvæmt þeim sögum bjuggu Eiríkur rauði Þorvaldsson og kona hans Þjóðhildur Jörundardóttir að Eiríksstöðum og flest bendir til þess að þar hafi einnig fæðst sonur þeirra, Leifur heppni, sem fyrstur Evrópumanna kannaði Nýja heiminn.
Tilgátubærinn
Fornleifarannsóknir hafa leitt í ljós skála og jarðhús frá víkingaöld á Eiríksstöðum og lágu niðurstöður rannsóknanna til grundvallar byggingu tilgátubæjar sem Dalamenn reistu skammt frá rústunum árið 2000 í tilefni af þúsund ára afmæli landafunda Leifs heppna.