Heiðarvegur 56 í Vestmannaeyjum

Heimir Hallgrímsson er fæddur 10. júní 1967 í Vestmannaeyjum. Hann átti á sínum æsku- og unglingsárum heima að Heiðarvegi 56, en þaðan var stutt að fara á þáverandi aðalleikvang Eyjamanna, malarvöllinn í Löngulág. Þar lærði Heimir að sparka bolta eins og aðrir eyjapeyjar, s.s. eldri bræður hans. Heimir lék með meistaraflokki Eyjamanna í áratug, en á seinni hluta ferils síns var hann farinn að þjálfa m.a. meistaraflokk kvenna í Eyjum og síðan karla, sem hann gerði síðan um árabil. Árið 2011 var Heimir ráðinn aðstoðarþjálfari Svíans Lars Lagerback hjá karlalandsliði Íslands, og í kjölfarið hófst geysilegt uppgangstímabil hjá landsliðinu. Því tókst að komast inn í Evrópukeppni landsliða fyrsta sinni árið 2016 og síðan í Heimsmeistarakeppnina í Rússlandi 2018, einnig í fyrsta sinn og nú undir stjórn Heimis sem aðalþjálfara liðsins. Árangur íslenska landsliðsins hefur vakið heimsathygli á síðustu árum og hlaut Heimir lof og aðdáun fyrir framgang sinn með liðið.  Heimir lét af störfum með landsliðið eftir Heimsmeistarakeppnina 2018.

Skildu eftir svar