Uppsalir í Vestmannaeyjum

Úr Mýrdalnum til Eyja

Hjalti Jónsson hóf búskap í Uppsölum árið 1894, ásamt eiginkonu sinni, Guðrúnu Ólafsdóttur, sem hann hafði kvænst 1. desember sama ár.  Hjalti var úr Mýrdalnum og var fyrst ráðinn til róðra í Vestmannaeyjum vertíðina 1884 til Árna Diðrikssonar í Stakkagerði, þar sem hann var til heimilis, og síðar í vist til Gísla Engilbertssonar í Júlíushaab eftir að hann settist að í Eyjum árið 1888.  Gerðist hann í fyrstu vinnumaður hjá Gísla en reri svo hjá ýmsum formönnum og varð síðar sjálfur bátseigandi.

Eldeyjar- Hjalti

Hjalti vann sér til frægðar á Eyjaárum sínum að klífa Eldey ásamt félögum sínum, bræðrunum Stefáni og Ágústi Gíslasonum frá Hlíðarhúsi en eyjan hafði aldrei fyrr verið klifin.  Hlaut hann viðurnefnið Eldeyjar- Hjalti í kjölfarið. Þeir þremenningar lögðu til atlögu við eyna seint í maí árið 1894 með línur og bönd, fjölmarga járnbolta, sem hægt var að berja inn í bergið með sleggju eða slaghamri,  4- 5 metra planka og matvæli. Var hægt að nota plankann sem stiga, en í hann voru negld þrep með vissu millibili.  Fetuðu þeir félagar sig upp bergið með þetta hafurtask, Hjalti á undan eftir að hafa neglt bolta í bergið, þar sem það var hægt, og bræðurnir á eftir.  Stiginn kom í góðar þarfir á ákveðnum stöðum.  Seinasti spottinn upp á brún reyndist þeim sérlega erfiður, en svo hvasst var þar uppi, að ómögulegt var að nota stigann og þá náðu þeir aðeins festu fyrir einn bolta.  Þeir voru staddir á drang í berginu og fyrir ofan þá var stallur en þaðan var stutt upp á bjargsbrún Tókst Hjalta að vega sig upp á stallinn með því að Stefán settist klofvega á egg á dranginum, Ágúst bróðir hans steig upp á axlir hans, greip um járnboltann, hallaði sér að berginu en Stefán hélt um fætur hans.  Hjalti klifraði síðan upp á axlir Ágústar, teygði sig upp á stallinn og náði ekki taki fyrr en hann hafði stigið með öðrum fæti upp á höfuð hans!  Tókst honum á þennan hátt  að vega sig upp og áfram upp bjargbrún en bræðurnir fylgdu svo í kjölfarið.  Þegar upp var komið reyndust þeir hafa verið 2 klukkustundir á leiðinni upp u.þ.b. 80 m þverhnípt bjargið.

Þeir þremenningar hlutu mikla frægð fyrir afrek sitt sem Hjalti lýsti síðar í ævisögu sinni, Sögu Eldeyjar- Hjalta, sem Guðmundur Gíslason Hagalín skráði og út kom árið 1939.  Hjalti Jónsson flutti frá Eyjum árið 1895, en hann lést í Mosfellssveit 1949.


Húsið


Nokkur hús heita Uppsalir í Eyjum og skammt á milli þeirra á svæði milli Vestmannabrautar að norðan og Faxastígs að sunnan, en götur þessar liggja samsíða frá austri til vesturs. Tvö nýrri húsin voru byggð snemma á 20. öld, en það þriðja var sambyggt sem eystri og vestri Uppsalir og er í dag skrásett við Vestmannabraut 51 a og b. Væntanlega hefur Eldeyjar- Hjalti búið þar, en húsið er mikið endurbyggt og ólíklegt að eitthvað sé upprunalegt í því lengur. Á undan Hjalta bjó um tíma m.a. M.M.L. Agaard í Uppsölum, vinsæll, danskur sýslumaður, en hann skildi eftir sig kennileiti í Eyjum, sem við hann er kennt og þekkt meðal eyjaskeggja.

Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is

Skildu eftir svar