Bakkaeyri í Vestmannaeyjum
Bakkaeyri, Skólavegur 26, var æskuheimili Birgis Andréssonar myndlistarmanns, en hann var fæddur 5. febrúar 1955 í Vestmannaeyjum. Faðir hans, Andrés Gestsson, Andrés blindi, festi kaup á húsinu og innréttaði að einhverju leyti, þá orðinn blindur. Brgir átti sín æskuskref á horni Skólavegar og Brekastíg uns hann flutti með föður sínum og systur til Reykjavíkur árið 1960. Í höfuðborginni nam Birgir myndlist og síðar í Hollandi og varð kunnur af list sinni. Hann hélt fjölda einkasýninga heima og erlendis og tók sömuleiðis víða þátt í fjölda samsýninga. Birgir hlaut ýmsar viðurkenningar fyrir list sína, var t.a.m. fulltrúi Íslands á listasýningu í Feneyjum 1995 og tilnefndur til Íslensku sjónlistarverðlaunanna árið 2006. Birgir lést ári síðar, 52 ára að aldri. Árið 2010 kom út bók um Birgi eftir Þröst Helgason, Birgir Andrésson Í íslenskum litum. Þá var gerð heimildamynd um Birgi sem sýnd var fyrst árið 2017.
Æskuheimili Birgis Andréssonar í Eyjum hefur tekið allmiklum breytingum á hálfri öld eftir að hann steig þar sín fyrstu spor, en þakinu hefur m.a. verið lyft og umfang hússins þar með aukist mjög á hæðina.