Kaldaðarnes í Flóa
Kaldaðarnes er fornt höfuðból og ferjustaður við Ölfusá í Flóa þar sem talið er að Gissur Þorvaldsson jarl hafi búið um tíma. Fram að siðaskiptum var heilagur trékross í kirkjunni í Kaldaðarnesi sem aldraðir og sjúkir sóttust eftir að berja augum enda var krossinn talinn hafa mikinn lækningamátt. Trú kaþólskra manna á krossinn var slík að lútersk kirkjuyfirvöld töldu nauðsynlegt að fjarlægja krossinn. Árið 1550 lét Gissur biskup Einarsson taka krossinn niður og Gísli Jónsson biskup lét síðan höggva hann og brenna í Skálholti.
Holdsveikraspítali
Á 17. öld voru stofnaðir fjórir holdsveikraspítalar á Íslandi. Einn þessara spítala var reistur á Klausturhólum í Grímsnesi en var fluttur hingað árið 1753. Vegna skorts á fagfólki er hæpið að kalla þessar stofnanir spítala en biskup og lögmenn höfðu yfirumsjón með þessum stofnunum. Eftir að embætti landlæknis var stofnað árið 1760 heimsótti landlælknir spítalana á nokkurra ára fresti. Ólafía Þyrí Hólm Guðjónsdóttir skrifaði árið 2016 B.A. ritgerðina Krossberar í Kaldaðarnesi: Kaldaðarnesspítali í Flóa á árunum 1753-1776 um starfsemi spítalans í Kaldaðarnesi.
Haraldur Sigurðsson píanóleikari
Hér ólst upp einn frægasti píanóleikari landsins á fyrri hluta 20. aldarinnar, Haraldur Sigurðsson. Haraldur fæddist í Hjálmholti í Flóa árið 1892, sonur Sigurðar Ólafssonar sýslumanns og konu hans Sigríðar Jónsdóttur. Haraldur bjó og starfaði lengst af erlendis en kom reglulega til Íslands. Hélt hann þá jafnan tónleika auk þess sem hann tók nemendur í kennslu. Hann giftist söngkennaranum Dóru Köcher árið 1918 en hún kom oft með honum til Íslands og kenndi hér söng. Dóra Köcher var fyrsta konan sem söng inn á plötu hér á landi.
Bresk flugstöð
Í seinni heimsstyrjöldinni byggði breski flugherinn (RAF) flugvöll í Kaldaðarnesi og rak þar flugstöð allt þar til Ölfusá flæddi yfir bakka sína 6. mars 1943 og olli miklum skemmdum á flugvellinum. Árið 1999 var reistur minnisvarði við Selfossflugvöll um veru breska flughersins í Kaldaðarnesi.
Ábúendur
Gaukur Jörundsson (1934-2004), prófessor og hæstaréttardómari, ólst að hluta til upp í Kaldaðarnesi og nú (2018) býr sonur hans, Jörundur Gauksson, hér.