Ljárskógar í Laxárdal
Ljárskógar eru bær í Laxárdal í Dalasýslu sem nefndur er bæði í Grettissögu og Laxdælu. Hingað leitaði útlaginn Grettir Ásmundarson oft til frænda síns Þorsteins Kuggasonar og í eitt skiptið dvaldi hann hér vetrarlangt.
Listamenn frá Ljárskógum
Hér fæddist Jón Jónsson (1914–45), skáld og söngvari í M.A. kvartettnum. Jón lést úr berklum á Vífilsstöðum aðeins 31 árs gamall en minnisvarði um Jón hefur verið reistur vestan við veginn í landi Ljárskóga. Í Ljárskógaseli, sem nú er í eyði, ólst Jóhannes (1899–1972) skáld úr Kötlum Jónasson upp en hann fæddist að Goddastöðum í Laxárdal. Minnisvarði um Jóhannes var reistur í Búðardal árið 1999.
Vegagerðin og álfarnir
Við þjóðveginn í landi Ljárskóga er að finna tvo stóra steina sem taldir eru bústaðir álfa, Klofasteinar. Árið 1995 hugðist Vegagerðin færa steinana til vegna vegagerðar á svæðinu en varð að láta í minni pokann fyrir álfunum og færa steinana aftur á sinn stað. Þetta gerðist eftir að kona úr sveitinni hafði haft samband við álfana og fengið leiðbeiningar um það hvernig staðið skyldi að verkinu.