Nýibær í Vestmannaeyjum

Nýibær í Vestmannaeyjum var fæðingarstaður og heimili Þórðar Ben Sveinssonar, sem fæddist þar 3. desember 1945. 6 ára gamall flutti Þórður til Reykjavíkur og birtist svo aftur u.þ.b. tveim áratugum síðar árið 1969 í fæðingarbæ sínum sem framsækinn myndlistarmaður. Hann hafði þá þegar vakið athygli sem einn af svokölluðum SUM-listamönnum, en þeir vildu leiða íslenska list inn á nýjar, ótroðnar brautir. Þórður fylgdi eftir slíkum hugmyndum í sínu gamla samfélagi og vakti fljótlega mikla athygli með nýstárlegum uppátækjum, fasi, framkomu og hugmyndum, sem voru Eyjamönnum framandi. Skildi Þórður eftir sig spor í Eyjum, sem lifað hafa fram á þennan dag hjá samferðarfólki hans s.s. Bjartmari Guðlaugssyni, tón- og myndlistarmanni, og birtast m.a. í bók Bjartmars, Þannig týnist tíminn. Þórður hélt utan að ári liðnu í Eyjum og hefur búið síðan í Þýskalandi og Hollandi. Á 9. áratugnum hélt Þórður sýningar, þar sem hann kynnti hugmyndir sínar um nýtt borgarskipulag, Borg náttúrunnar, og hélt áfram að þróa þær og sýna fram á 21. öldina. Æskuheimili Þórðar, Nýibær, lenti undir fargi ösku í Heimaeyjargosinu 1973 og reyndist ónýtt sem og það umhverfi, sem hann ólst upp í á grösugum grundum innan um bændur og búalið.

 

Skildu eftir svar