Sveinsstaðir í Vestmannaeyjum

Sveinsstaðir við Njarðarstíg 6 voru æskuheimili Júlíönu Sveinsdóttur, en hún var fædd í Vestmannaeyjum 31. júlí 1889. Júlíana ól ung manninn nálægt aðalatvinnusvæði Eyjamanna, Læknum, og hefur því kynnst snemma almennu striti og streði við sjávarsíðuna. Júlíönu biðu þó önnur örlög en allra annarra krakka, sem ólust upp í Eyjum um aldamótin 1900. Hún hleypti heimdraganum 16 ára gömul, hélt þá til náms í höfuðstaðinn, þar sem hún hneigðist fljótlega að málverki og myndlist. Um tvítugt fór hún til Kaupmannahafnar til frekara náms, og ílengdist þar til æviloka. Varð Júlíana þekkt mynd- og veflistarkona á Norðurlöndum og víðar og naut mikillar viðurkenningar og virðingar sem listakona. Sveinsstaðir fóru undir hraun í Heimaeyjargosinu 1973, en húsið stóð nálægt hraunjaðrinum neðarlega við Kirkjuveg. Allt það umhverfi, þar sem Júlíana sleit barnsskónum, er nú horfið. Um langt skeið var Júlíana Sveinsdóttir fyrsta og eina listakonan, sem sprottin var upp úr hrjóstrugum jarðvegi Heimaeyjar á tímum, þegar brauðstrit og barnauppeldi var hlutskipti kvenna í Eyjum sem annarsstaðar á landinu. Hún lést í Kaupmannahöfn 17. apríl 1966, en jarðneskar leifar hennar voru fluttar sína hinstu ferð til föðurlandsins og jarðsettar í þeirri mold, þar sem rætur hennar lágu, í Landakirkjugarði.

Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is

Skildu eftir svar