Eldhraun
Eldhraun er vestari hluti Skaftáreldahrauns en eystri hluti hraunsins nefnist Brunahraun. Hraunið rann úr Lagagígum á Síðumannaafrétti í Skaftáreldum 1783-1784 en Skaftáreldar ollu svonefndum móðuharðindum (sjá einnig færsluna Lakagígar). Skaftáreldahraun er eitt mesta hraun sem runnið hefur í heiminum á sögulegum tíma. Er talið að rúmmál þess sé um 16 km3 og flatarmál um 580 km2.
Um gosið
„Hraunið sem rann úr Lakagígum þekur um 0,5% af flatarmáli Íslands. Það rann niður á láglendi í tveimur kvíslum, eins og sést á meðfylgjandi korti. Þannig skiptist Skaftáreldahraun í tvo meginhluta – vestari kvíslina, Eldhraun, og eystri kvíslina, Brunahraun. Vestari hraunelfurin flæddi frá gossprungunum suðvestan við Laka þar sem gosið hófst. Hraunið þaðan fyllti Úlfarsdal og Varmárdal og rann niður afréttinn í tveimur rásum. Önnur rásin fyllti Skaftárgljúfur en hin fylgdi farvegi Hellisár niður undir Leiðólfsfell. Skaftá þvarr strax á þriðja degi gossins og aðeins fimm dögum eftir að gosið hófst náði hraunið niður á láglendi og hafði þá farið um 40 kílómetra leið. Í lok júlímánaðar dró heldur úr virkninni í sprungunum sunnan Laka og á sama tíma hófst gos í sprungu norðan Laka. Um viku síðar tók hraunið að renna niður farveg Hverfisfljóts og fyllti gljúfur þess á leið sinni niður á láglendi. Hverfisfljót rann ekki í þeim farvegi framar. Gosið hélt áfram og nýjar gossprungur mynduðu eystri hraunkvíslina. Gosinu lauk þann 7. febrúar 1784.“
Umhverfisstofnun.