Öræfajökull
Öræfajökull (Knappafellsjökull til forna) er eldkeila í sunnanverðum Vatnajökli. Hæsti hluti fjallsins er Hvannadalshnjúkur sem telst vera hæsti tindur Ísland, 2110 metrar. Um 5 km breið og 500 metra djúp askja lúrir undir jökulhettunni við topp fjallsins. Margir skriðjöklar ganga fram undan jöklinum og eru þeir helstu Svínafellsjökull, Virkisjökull, Kotárjökull, Kvíárjökull og Hrútárjökull. Jökullinn er allur innan Vatnajökulsþjóðgarðs.
Gosið 1362
Öræfajökull hefur tvívegis gosið frá landnámi, 1362 en síðan ekki aftur fyrr en árið 1727. Gosið 1727 var tiltölulega skaðlaust en gosið 1362 var eitt mannskæðasta gos Íslandssögunnar. Gosið var einnig stærsta sprengigos hér á landi frá því land byggðist og var magn gosefna sem upp kom um 30 sinnum meira en það gosmagn sem upp kom í Eyjafjallagosinu 2010. Fyrir gosið 1362 er talið að á Litlahéraði, en svo var sveitin á milli Skeiðarársands og Breiðamerkursands kölluð til forna, hafi verið blómleg byggð með allt að 40 bæi og 17 guðshús en gosið breytti sveitinni í „öræfi“ á skömmum tíma. Jökulhlaup og þykkt lag af gjósku olli miklum búsifjum en því hefur líka verið haldið fram að gusthlaup hafi verið meginskaðvaldur gossins. Gosið í Pompeii 79 e.k. sýnir gríðarlegan eyðileggingarmátt gusthlaupa.
Fornleifarannsóknir
Tveir af bæjunum sem fóru í eyði í gosinu 1362 hafa verið grafnir upp. Um miðja síðustu öld var bærinn Gröf grafinn upp en hann stóð skammt norðan við Hof í Öræfum. Meðal rannsakenda við uppgröftinn voru fræðimennirnir Kristján Eldjárn þjóðminjavörður og Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur. Bærinn Bær, sem stóð á milli Fagurhólsmýrar og Salthöfða, var grafinn upp á fyrsta áratug þessarar aldar undir stjórn Bjarna F. Einarssonar fornleifafræðings.