Stafnes á Reykjanesi
Stafnes er lítið nes vestast á Reykjanesskaga milli Sandgerðis og Hafna. Þann 27. febrúar 1928 strandaði togarinn Jón forseti á rifi við Stafnes í aftakaveðri. Aðeins tókst að bjarga 10 af 25 manna áhöfn skipsins en skilyrði til björgunar voru mjög slæm.
Fyrsti sérsmíðaði togarinn
Jón forseti var smíðaður á Englandi árið 1906 fyrir útgerðarfyrirtækið Alliance hf sem Thor Jensen stofnaði með fleiri athafnamönnum. Jón forseti var fyrsti togarinn sem smíðaður var sérstaklega fyrir íslenskt fyrirtæki.
Stofnun björgunardeilda
Þetta sjóslys var aðeins eitt af fjölmörgum sjóslysum sem urðu við Reykjanes á síðustu öld en slysið við Stafnes varð til þess að ýta undir stofnun björgunardeilda víðs vegar um landið á vegum nýstofnaðs Slysavarnarfélags Íslands.