Svörtuloft á Snæfellsnesi
„Það þykja vond og viðsjál boðaföll um vetrarnætur undir Svörtuloftum“
Svörtuloft á Snæfellsnesi eru um fjögurra km langir sjávarhamrar vestast á Snæfellsnesi sem draga nafn sitt af svörtu berginu. Hér er hraunið snarbratt og brim mikil í vondum veðrum sbr. ljóðlínu Davíðs Stefánssonar hér að ofan. Mörg skip hafa farist við Svörtuloft.
Svanborg SH 404
Þann 7. desember 2001 fórst togarinn Svanborg SH 404 frá Ólafsvík við Svörtuloft, skammt sunnan Skálasnagavita. Fjórir menn voru í áhöfn skipsins en aðeins einn komst lífs af. Honum var bjargað í þyrlu Varnarliðsins en aftakaveður var á slysstaðnum, 20-25 m/sek, slydda og dimmviðri.
Minnisvarði um horfið fólk
Á sjómannadaginn 6. júní 2004 var afhjúpaður minnisvarði í Ólafsvík um horfið fólk en sjóslysið við Svörtuloft 2001 var tilefni þess að sóknarnefnd Ólafsvíkurkirkju réðst í þessa framkvæmd. Minnisvarðinn, sem er eftir listamanninn Sigurð Guðmundsson, er uppreistur granítsteinn með gati (sjá mynd).