Árið 1208

Skjáskot úr sjónvarpsþáttunum „Vikings“

Árið 1208 fæddust tveir drengir á Íslandi sem áttu eftir að setja mikinn svip á 13. öldina. Þetta voru þeir Kolbeinn Arnórsson af ætt Ásbyrninga og Gissur Þorvaldsson af ætt Haukdæla. Vígi Ásbyrninga var í Skagafirði en Haukdælir voru kenndir við Haukadal í Biskupstungum. Vestur í Dölum varð ungur drengur, Sturla Sighvatsson, 9 ára þetta ár en hann var barnabarn Hvamms-Sturlu sem Sturlungar eru kenndir við.  Leiðir þessara þriggja drengja áttu eftir að liggja saman með afdrifaríkum afleiðingum því 30 árum seinna gengu þeir Kolbeinn og Gissur í bandalag gegn Sturlu og liði Sturlunga og sigruður þá í Örlygsstaðabardaga.  Föðurbróðir Sturlu, Snorri Sturluson, var 29 ára gamall árið 1208 og var hann þegar orðinn valdamikill höfðingi í Reykholti í Borgarfirði. Annar náfrændi Sturlu, Sturla Þórðarson, fæddist sex árum síðar, eða árið 1214, en það er einkum fyrir hans tilstilli að nöfn allra þessara einstaklinga lifa því hann skrásetti alla helstu viðburði þessa tímabils í Íslendingasögu Sturlungu. Árið 1208 var Páll Jónsson, sonur Jóns Loftssonar í Odda og uppeldisbróðir Snorra Sturlusonar, biskup í Skálholti.

Skildu eftir svar