Árið 1262

Árið 1262 var Gissur Þorvaldsson jarl yfir Íslandi í umboði Noregskonungs, 54 ára gamall. Noregskonungur hafði lengi att íslenskum höfðingjum saman í þeim tilgangi að ná yfirráðum hér á landi og loksins, árið 1262, hófst undirritun Gamla sáttmála sem gaf Noregskonungi þessi langþráðu yfirráð. Því ferli lauk hins vegar ekki fyrr en tveimur árum síðar, 1264. Allir helstu höfðingjar Sturlunga voru fallnir frá árið 1262, Snorri Sturluson (drepinn í Reykholti 1241), Sighvatur Sturluson og Sturla sonur hans (Örlygsstaðabardagi 1238), Þórður kakali (dó í Noregi 1256), Þorgils skarði (drepinn á Hrafnagili í Eyjafirði 1258) en Sturla Þórðarson sagnaritari og lögmaður var á lífi. Sama gilti um höfðingja Ásbyrninga en segja má að veldi þeirra hafi liðið undir lok í Haugsnesbardaga árið 1246 þegar Brandur Kolbeinsson var drepinn af Þórði kakala og mönnum hans. Þá var Hrafn Oddsson tengdasonur Sturlu Sighvatssonar á lífi árið 1262, 37 ára gamall. Á árinu 1262 sættust Gissur Þorvaldsson og Hrafn Oddsson endanlega á Alþingi en Hrafn hafði þagað um yfirvofandi aðför Eyjólfs ofsa að Gissuri á Flugmýri árið 1253 (Flugumýrarbrenna) þar sem fjölskylda Gissurar var drepin. Hrafn átti eftir að verða hirðstjóri yfir Íslandi eftir lát Gissurar Þorvaldssonar nokkrum árum síðar (1268). Á árinu 1262 var norskur biskup í Skálholti, Sigurður Þéttmarsson. Hafði Hákon Noregskonungur beitt áhrifum sínum til að fá norskan biskup vígðan í Skálholt til að styrkja norsk áhrif á Íslandi. Á þessu ári hófst allmikið gos í Kötlu. Gjóskufall var mikið og í annálum er talað um að „myrkur hafi hulið sólu“.

Skildu eftir svar