Ásgarður
Forn kirkjustaður
Ásgarður er bær og fyrrum kirkjustaður í Hvammsveit í Dalasýslu sem fyrst er nefndur í Sturlungu. Vitað er að kirkja var í Ásgarði árið 1327 en síðasta kirkjan hér var aflögð 1882. Í landi Ásgarðs er ein af friðlýstum fornleifum sveitarinnar sem er forn „girðing“í túninu og kallast lögrjetta. Á seinni hluta 16. aldar bjó hér Teitur Eiríksson bóndi og kona hans Katrín Pétursdóttir en hún var dóttir gleraugna-Péturs Einarssonar, prests í Hjarðarholti. Pétur, sem var mágur Daða í Snóksdal, kom mjög við sögu siðaskiptanna um miðja 16. öld.
Álfabyggð
Í landi Ásgarðs er stapi, Ásgarðsstapi, sem talinn er bústaður huldufólks. Til er mögnuð saga af samskiptum fyrrum húsfreyju í Ásgarði og íbúa Ásgarðsstapa. Lesa má um ævintýri húsfreyjunnar í Þjóðsögum og ævintýrum Jóns Árnasonar.
Ásgeir Bjarnason
Hér fæddist Ásgeir Bjarnason, bóndi og alþingismaður, árið 1914. Foreldrar hans voru Bjarni Jensson bóndi og hreppstjóri og kona hans Salbjörg Ásgeirsdóttir, ljósmóðir og húsmóðir. Ásgeir nam búfræði á Hólum og í Noregi og starfaði við tilraunastöð búnaðarháskólans í Ási á árunum 1940-1942. Ásgeir lést árið 2003