Höfði (Héðinshöfði)
Höfði er hús á Félagstúni í Reykjavík sem var byggt fyrir franska konsúlinn Jean Paul Brillouin árið 1909. Húsið var hannað í Noregi og flutt tilsniðið til Íslands.
*
Af þeim sem búið hafa í húsinu má nefna Einar Benediktsson (1864-1940) skáld, sem gaf húsinu nafnið Héðinshöfði eftir æskuheimili hans á Tjörnesi og listakonuna Louisu Matthíasdóttur (1917-2000). En húsið er einnig þekkt fyrir fræga gesti sem þangað hafa komið og nægir þar að nefna Winston Churchill (1874-1965) og Marlene Dietrich (1901-1992). Frægast er húsið þó fyrir leiðtogafundinn sem haldinn var í húsinu 11.-12. október 1986. Þá funduðu þeir Ronald Reagan (1911-2004), forseti Bandaríkjanna og Mikhail Gorbatsjev (1931), leiðtogi Sovétríkjanna, en fundurinn er talinn hafa skipt miklu máli fyrir endalok kalda stríðsins.
*
Síðan 1967 hefur húsið verið notað sem móttökustaður Reykjavíkurborgar.