Hrafnseyri við Arnarfjörð
Hrafnseyri er jörð og kirkjustaður við norðanverðan Arnarfjörð á Vestfjörðum. Í Landnámu segir að Án Rauðfeldur og Grelöð kona hans hafi byggt sér bú í Arnarfirði þar sem þá hét Eyri. Síðar fékk staðurinn nafnið Hrafnseyri í höfuðið á goðorðsmanninum Hrafni Sveinbjarnarsyni sem bjó hér á 12. og fram á 13. öld.
Hrafn Sveinbjarnarson
Hrafn nam læknisfræði erlendis og er talinn fyrsti menntaði læknirinn á Íslandi. Hrafn var gestrisinn og vinsæll og stundaði ókeypis lækningar þegar heim kom. Hrafn var hálshöggvinn af mönnum Þorvaldar Vatnsfirðings frænda sínum og dró það víg langan hefndarhala á eftir sér. Synir Hrafns, Sveinbjörn og Krákur, hefndu föður síns með liðsinni Sturlu Sighvatssonar og brenndu Þorvald inni á Gillastöðum í Króksfirði árið 1228. Seinni kona Þorvaldar, Þórdís Snorradóttir, laundóttir Snorra Sturlusonar, bjargaðist með naumindum úr eldinum. Stuttu síðar, í janúar 1229, stóðu synir Þorvaldar, þeir Þórður og Snorri, fyrir svonefndri Sauðafellsför en voru síðan drepnir af mönnum Sturlu Sighvatssonar þann 8. mars 1232 á milli Hundadala og Bæjar í Miðdölum. Synir Hrafns féllu síðan sjálfir í Örlygsstaðabardaga árið 1238 en þar börðust þeir við hlið Sturlunga.
Safn Jóns Sigurðssonar
Á Hrafnseyri er safn um sjálfstæðishetjuna og stjórnmálamanninn Jón Sigurðsson, betur þekktur sem Jón forseti fyrir störf sín í þágu Hins íslenska bókmenntafélags. Hluti af safninu er burstabær sem byggður var árið 1997 og er að miklu leyti eftirlíking af þeim bæ sem Jón fæddist í. Einn veggurinn í bænum var hluti af upprunalega bænum.