Hjallasker við Viðey
Hjallasker er sker í Viðeyjarsundi vestanmegin við Viðey. Á háfjöru er gengt út í skerið.
Ingvarsslysið
Þann 7. apríl 1906 gerði ofsaveður á Faxaflóa með hörmulegum afleiðingum. Þennan dag fórust þrjú þilskip frá Reykjavík á Faxaflóa og með þeim 68 menn. Eitt þessara skipa, kútter Ingvar í eigu Duusverlsunarinnar, strandaði á Hjallaskeri við Viðey. Reykvíkingar, sem safnast höfðu saman á ströndinni þegar fréttir bárust af strandinu, horfðu hjálparlausir á skipverja falla úr reiðanum í ólgandi hafrótið, einn af öðrum, meðan skipið liðaðist í sundur. Í kjölfar slyssins, sem varð þekkt sem Ingvarsslysið, var efnt til fjársöfnunar fyrir ekkjur og börn þeirra sem fórust. Einnig var ætlunin að safna fyrir björgunarbát en slysið opnaði augu fólks fyrir hinum áþreifanlega skorti á björgunartækjum. Ekkert varð úr kaupum á björgunarbát í það skiptið.
Herskip ferst við Viðey
Þrjátíu og átta árum síðar, þann 25. október 1944, varð annað sjóslys á sömu slóðum sem kostaði 15 manns lífið. Þá fórst kanadíski tundurspillirinn Skeena sem slitaði upp í aftakaveðri og rak út í Viðey. Skipið var 1337 smálestir að stærð með 213 manna áhöfn. Skipið, sem tók þátt í innrásinni í Normandy og var eitt af forystuskipunum í hinni frægu SC-42 skipalest, endaði í eigu nokkurra Íslendinga sem seldu það í brotajárn.
Minnismerki um Ingvarsslysið
Akkeri sem fannst við Hjallasker árið 1986 er talið vera úr kútter Ingvari. Akkerinu var komið fyrir í Viðey til minningar um slysið.