Erlendarkrær í Vestmannaeyjum
Erlendarkrær eru við Stórhöfða að norðan við Höfðavíkina. Þær eru forn fiskbyrgi, en um miðja 19. öldina rak upp í Víkina milli Stórhöfða og Klaufarinnar enskt skip, en skipverjar reyndust allir látnir og voru líkin verulega farin að rotna. Virtist sem einhver sótt hefði drepið mennina. Ekki þótti við hæfi að flytja líkin niður í bæ til greftrunar, þar sem um heiðna menn gæti verið að ræða. Voru þau því grafin við Erlendarkrær, en í kjölfarið fór að bera á reimleikum á þessum slóðum. Var þá rætt um að grafa beinin upp, en ekkert varð úr fyrr en árið 1934, er komið var niður á þau við vegagerð. Voru beinin þá flutt í kirkjugarðinn og grafin þar á kostnað ríkissjóðs.