Snóksdalur
Snóksdalur er bær og kirkjustaður í Miðdölum í Dalasýslu. Í Snóksdal bjó Daði Guðmundsson (1495-1563), sýslumaður og stórbóndi og einn helsti andstæðingur Jóns Arasonar (1484-1550) biskups. Daði handtók Jón biskup og syni hans á Sauðafelli haustið 1550 og í nóvember sama ár voru þeir feðgar hálshöggnir í Skálholti.
Hér hefur staðið kirkja að minnsta kosti frá því snemma á 13. öld en núverandi kirkja var vígð árið 1875. Margir merkir munir eru í kirkjunni meðal annars klukka sem Hannes Björnsson, dóttursonur Daða Guðmundssonar, gaf kirkjunni árið 1595 og kaleikur frá 16. öld.