Eilífðin í Vestmannaeyjum
Árið 1907 fékk Gísli J. Johnsen umráð yfir hinu forna uppsátri, Fúlu, og öllum Nausthamrinum austan Læksins. Hófst hann þegar handa við að fylla þarna upp og undirbúa svæðið fyrir fiskvinnsluhús. Var húsið fullgert árið 1924 og var í anda Gísla, stærra en nokkurt annað fiskvinnsluhús, sem risið hafði á landinu. Í samanburði við krærnar, litlu aðgerðarhúsin við höfnina, dugði ekkert minna nafn á hús Gísla en að líkja því við óendanleikann og almættið sjálft! „Eilífðin“ var risin, þar sem húspláss mundi aldrei þrjóta! En eins og oft áður reyndust hugmyndir manna blikna, þegar þær voru mátaðar við raunveruleikann! Svo mikill landburður varð af fiski á næstu árum, að Eilífðin reyndist fljótt of lítil. Eigandinn reyndi ýmsar nýjungar í húsinu, nú fór fiskaðgerðin fram undir þaki, en ekki úti eins og áður, hann keypti flatningsvél 1926, þá fyrstu í landinu, og afhausunarvél síðar, en báðar vélarnar reyndust illa. Þá var matstofa í húsinu fyrir starfsfólk, salerni, vaskar og rennandi vatn, allt óþekktar nýjungar fram að þessu. Gísli J. Johnsen hrökklaðist úr Eyjum eftir að kreppan mikla um 1930 hafði leikið hann illa, en annar athafnamaður reisti veldi sitt á hans rústum um 10 árum síðar. Einar ríki Sigurðsson byggði Hraðfrystistöð sína á þessu svæði við Nausthamarinn og Eilífð Gísla varð hluti af þeirri byggingu. Hraunið úr Heimaeyjargosinu náði að eyðileggja hluta Hraðfrystistöðvarinnar, en nýbygging er í dag nokkurn veginn á grunni Eilífðarinnar.