Heiði í Vestmannaeyjum

Frumherji í vélbátaútgerð

Sigurður Sigurfinnsson, hreppstjóri, bátsformaður og fl., átti heima í Litlu-Heiði, en hann var einn af fyrstu sjósóknurum í Eyjum sem eignaðist vélbát til fiskveiða.  Reyndar var sá bátur annar í röð þeirra báta, sem knúnir voru áfram af vélarafli og mörkuðu upphaf þeirrar byltingar sem fylgdi í kjölfarið í sjósókn frá Eyjum og á því samfélagi sem þar þreifst í upphafi 20. aldarinnar.  Koma þessara fyrstu vélbáta til Eyja árin 1904 og 1905 markaði þáttaskil þótt þeir reyndust ekki nægilega vel til fiskveiða vegna þekkingarleysis og fákunnáttu í meðferð véla.  Þriðji vélbáturinn, Unnur, í eigu Þorsteins Jónssonar frá Laufási, sannaði hins vegar yfirburði vélbátanna svo um munaði á vertíðinni 1906, að útgerð á árabátum lagðist nánast af á næstu árum.  Vélin í báti Sigurðar í Heiði reyndist of lítil til þess að sanna gildi sitt á þessari vertíð en trú hans á vélaraflinu og framfarir með nýrri gerð báta var óbrigðul og á vertíðinni 1908 var hann kominn aftur í hóp þeirra formanna í Eyjum sem veðjuðu á vélaraflið.

Fyrstur yfir Atlantshafið?

Fyrsta tilraun Sigurðar hreppstjóra til vélbátaútgerðar markaði tímamót og var aðdragandinn einnig sögulegur. Sigurður hélt utan til Noregs sumarið 1905 ásamt öðrum manni, þar sem hann keypti 14 lesta seglbát, sem þeir félagar sigldu síðan til Friðrikshafnar í Danmörku. Þar var vél sett í bátinn, sem fékk nafnið Knörr VE 73 og lögðu þeir félagar af stað til Íslands í lok ágúst auk tveggja Norðmanna.  Tók siglingin heim 10 sólarhringa, þar sem reyndi á bátinn, bátsverja, vél og segl í alls kyns veðrum, logni sem óveðri og veltibrimi.  Mun þessi sigling yfir Atlantshafið jafnvel sú fyrsta sem kunn er hjá Íslendingum á svo litlum vélbáti sem Knörrin var og reyndi mjög á kunnáttu Sigurðar formanns i siglinga- og sjómannafræðum.  Þótti þekking hans slík í þessum fræðum, að vélbátar voru ekki tryggðir hjá Bátaábyrgðarfélagi Vestmannaeyja nema formenn þeirra höfðu lokið námi hjá Sigurði.

Forysta í landi sem á sjó

Auk starfa við sjómennsku var Sigurður mikill jarðræktarmaður og formaður Framfarafélags Vestmannaeyja  á meðan það starfaði á árabilinu 1893 – 1914. Beittu félagsmenn sér m.a. fyrir því að slétta tún, hlaða grjótgarða, auka nýrækt og tækjavæða landbúnaðinn í Eyjum s.s. með kaupum á fyrsta handvagninum árið 1894 og fyrstu skilvindunni árið 1911. Sigurður var einnig formaður bjargráðanefndar, þar sem sundkennsla var m.a. ofarlega á baugi en Eyjamenn voru í fararbroddi á landinu til þess að gera sund að skyldunámsgrein í skóla.  Þá stýrði hann fyrstur manna “landhelgisgæslu” í Eyjum, þegar hann safnaði saman mönnum og hélt á haf út til þess að góma erlenda veiðiþjófa á miðunum við Eyjar og færa þá til hafnar.  Einnig má telja Sigurð upphafsmann “blaða- og fréttamennsku” í Eyjum en hann sendi reglulega þaðan fréttapistla í blaðið Fjallkonuna í Reykjavík á árabilinu 1891 – 1897.

Einar ríki

Sonur Sigurðar Sigurfinnssonar var Einar, en hann var fæddur og uppalinn í Heiði, og ávallt síðar kenndur við auðlegð sína sem Einar ríki. Heiði stóð við Sólhlíð 21 og var rifið um 1990, en Einar fæddist þar 7. febrúar 1906 og óx úr grasi á tímum mikillar grósku og uppgangs í Eyjum. Hann varð sjálfur samnefnari fyrir athafnasemi í meira lagi, fór ungur í verslunarrekstur, en síðan héldu honum engin bönd: Verslun, útgerð, fiskvinnsla, alls kyns stjórnunarstörf, stjórnmál, ritstörf og margs konar tilraunastarfsemi í menningar- og menntamálum, sölumennsku og framleiðslu urðu Einari hugleikin. Hann stofnaði og rak eitt af stóru fiskverkunarhúsunum í Eyjum, Hraðfrystistöðina, en um miðjan aldur færði Einar út kvíarnar víðar um landið og út fyrir landsteinana. Hann var t.a.m. lengi í forystu Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, stjórnarformaður Coldwater í Bandaríkjunum svo eitthvað sé nefnt af ótal stjórnunar- og ábyrgðarstörfum í ýmsum fyrirtækjum. Þórbergur Þórðarson skráði í þremur bókum fyrri hluta ævisögu Einars ríka, sem ekki tókst að ljúka. Einar ríki lést 22. mars 1977.

Sonarsonur Einars er Ágúst Ólafur Ágústsson, fyrrverandi alþingismaður.

Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is

Skildu eftir svar