Hveravellir á Kili

Hveravellir eru hverasvæði á Kili, „ein hin einkennilegasta og furðulegasta listasmíð náttúrunnar, sem á Íslandi finnst“ segir í Ferðabók Eggerts og Bjarna, með hverum eins og Öskurhólshver, Fagrahver, Bláhver, Grænahver og Eyvindarhver. Í Vatnsdæla sögu og Landnámu er svæðið kallað Reykjavellir. Margt bendir til þess að lægðin í kringum Hveravelli hafi verið hinn forni Hvinverjadalur.

Bústaður Fjalla-Eyvindar og Höllu

Við norðanvert hverasvæðið er hraunsprunga þar sem talið er að Fjalla-Eyvindur (1714-1783) og Halla hafi búið sér bústað þegar þau dvöldu á Hveravöllum. Skammt frá sprungunni, í um 30 metra fjarlægð, er hverinn Eyvindarhver og bendir hleðsla í kringum hverinn til þess að hverinn hafi verið notaður til eldamennsku. Talið er að Fjalla-Eyvindur og Halla hafi alla vega tvisvar sinnum hafst við á Hveravöllum og í seinna skiptið náðist Halla en henni tókst að strjúka úr vistinni. Listilega vel gerð tágakarfa sem fannst þarna árið 1881 er talin handverk Eyvindar og er hún varðveitt á Byggðasafni Skagfirðinga í Glaumbæ.

Engin miskunn hjá Magnúsi

Annar minna þekktur „útlagi“ sem hafði stutta viðdvöl á Hveravöllum var Magnús nokkur sálarháski. Magnús var förmaður sem fór um sveitir og skemmti fólki með sögum af sjálfum sér og öðrum í skiptum fyrir mat og gistingu. Að eigin sögn lagðist Magnús út á Hveravöllum og eins og sannur útilegumaður byrjaði hann á því að stela lambi sér til matar. Þegar Magnús hóf að lífláta lambið „þá sagði blessað lambið me, en það var enga miskunn að finna hjá Magnúsi“ er haft eftir Magnúsi.

Sæluhús á Hveravöllum
Á Hveravöllum 1957

Talið er að sæluhús hafi verið á Hveravöllum frá fornu fari. Þrjú sæluhús eru nú á Hveravöllum. Hið elsta er með hlöðnum grjótveggjum, torfþaki og timurþiljum. Það var byggt árið 1922 en Minjavernd gerði húsið upp á árunum 1994-1995. Ferðafélag Íslands byggði sæluhús á Hveravöllum við hverasvæðið árið 1938 og var húsið hitað upp með heitu vatni frá hverasvæðinu. Það hús var hins vegar löngu ‘sprungið’ og annaði engan veginn vaxandi ferðamannafjölda þegar Ferðafélag Íslands byggði annað sæluhús á Hveravöllum árið 1980.

Sauðfjárveikigirðing

Um margra ára skeið höfðu tveir fjárvörslumenn, annar að sunnan og hinn að norðan, aðsetur á Hveravöllum yfir sumartímann. Hlutverk þeirra var að vakta girðinguna sem reist hafði verið árið 1940 þvert yfir Kjöl milli Hofsjökuls og Langjökuls til að hindra lausagöngu fjár milli landshluta. Þessu starfi sinnti m.a. Jóhannes skáld úr Kötlum en hann dvaldi á Kili sumarið 1939, árinu áður en girðingin kom. Sá sem lengst sinnti þessu starfi var Eysteinn Björnsson (1895-1978) frá Guðrúnarstöðum í Vatnsdal, sonur þjóðsagnapersónunnar Björns Eysteinssonar og bróðir Lárusar, sem báðir voru kenndir við Grímstungu í Vatnsdal. Björn var m.a. þekktur fyrir að hafa reist sér og börnum sínum bú inni á Auðkúluheiði um 1886 þar sem heitir Réttarhóll. Sinnti Eysteinn þessu starfi í yfir 20 ár og urðu Hveravellir hans annað heimili. Að sunnan komu menn eins og Óskar á Brú, Ingvar í Arnarholti og Einar Gíslason í Kjarnholtum. Þessari gæslu var hætt árið 2015.

Skildu eftir svar