Sjöundá á Rauðasandi

Sjöundá var bær á Rauðasandi í Barðastrandarsýslu sem fór í eyði árið 1921. Sjöundá, áin sem bærinn var kenndur við, var svo nefnd vegna þess að hún var söunda áin frá Bjarnkötludalsá.

Morðin á Sjöundá 1802

Bærinn var vettvangur hryllilegra atburða vorið 1802 þegar Steinunn Sveinsdóttir og elskugi hennar Bjarni Bjarnason myrtu maka sína. Þau voru dæmd til dauða og flutt í tugthúsið við Arnarhól. Erfiðlega gekk að finna böðul til verksins og áður en dauðadómunum var fullnægt dó Steinunn í fangelsinu þann 31. ágúst 1805. Bjarni var tekinn af lífi í Kristianssand í Noregi 4. október sama ár. Skáldsaga Gunnars Gunnarssonar, Svartfugl, byggir á atburðunum á Sjöundá 1802. Sjá einnig færsluna Steinkudys.

Fjölskylduharmleikur 1772

Annar en minna þekktur fjöldskylduharmleikur átti sér stað á Sjöundá 30 árum fyrr. Árið 1772 ól þrítug kona, Katrín Guðmundsdóttir, barn á Sjöundá sem hún átti með fósturföður sínum Bjarna Torfasyni. Katrín og Bjarni voru jafnaldrar en Bjarni var giftur aldraðri móður Katrínar. Sýslumaðurinn Davíð Scheving reyndi að koma þeim undan grimmilegum viðurlögum Stóradóms en séra Björn í Sauðlauksdal kærði þau til sama sýslumanns sem komst ekki undan því að dæma þau í samræmi við ákvæði laganna. Þau voru bæði dæmd til dauða fyrir legorðsbrot og flutt í tugthúsið við Arnarhól. Um þátt Björns í þessu máli mál lesa í grein séra Gísla Gíslasonar Undir bláum sólarsali sem birtist í Vesturlandi 1.12.1972. Í fangelsinu eignaðist Katrín þrjú börn, eitt með útilegumanninum Arnesi Pálssyni en það barn dó í fæðingu. Hún eignaðist dreng með bónda frá Miðdal í Mosfellssveit, Magnúsi Pálssyni, sem einnig hafði verið dæmdur fyrir legorðsbrot. Sá drengur komst á legg og varð hreppsstjóri á Lambastöðum á Seltjarnarnesi. Þá eignaðist hún stúlku, Margréti Gísladóttur, með óþekktum manni og náði sú stúlka hárri elli. Katrín lést á Vatni (líklega Elliðavatni) árið 1779 en líklegt er að hún hafi verið þar í vinnu því að á þessum tíma tíðkaðist það að nota fanga sem ódýrt vinnuafl.

Skildu eftir svar