Aðalstræti 16 (áður 18)
Á horni Aðalstrætis og Túngötu stendur syðsta hús hótels sem byggt var árið 2005. Var húsið byggt í anda húss sem stóð á þessum stað frá 1902 til 1969 og gekk undir nafninu Uppsalir. Lóðin sem Uppsalahúsið stóð á var númer 18 en í tengslum við skipulagningu reitsins Aðalstræti 14-18 og Túngötu 2-4 voru lóðirnar sameinaðar sem Aðalstræti 16.
Ullarstofa Innréttinganna
Á tímum Innréttinganna stóð hér (lengst til vinstri á myndinni) torfhús sem notað var sem geymsla undir ull og gekk undir nafninu Ullarstofa. Túnið sunnan við húsið, á horni núverandi Túngötu og Suðurgötu, dró nafn sitt af húsinu og var kallað Ullarstofutún. Húsið stóð fram undir 1830 en þá reisti Davíð Helgason hér einlyft timurhús (Davíðshús) sem stóð til ársins 1902. Sigurður Guðmundsson málari bjó síðustu ár sín í Davíðshúsi.
Uppsalir
Árið 1902 reisti Magnús Árnason hér þrílyft timurhús. Húsið gekk undir nafninu Uppsalir og var mikið notað undir veitinga- og verslunarrekstur. Hér var m.a. bókaverslun Ragnars Jónssonar í Smára, skóverslun Þórðar Péturssonar og vefnaðar- og fataverslunin Rósa.
Endurgerð Minjaverndar
Eftir að Uppsalir voru rifnir árið 1969 var lóðin notuð undir bílastæði en árið 1997 var gert samkomulag milli Reykjavíkurborgar og Minjaverndar um skipulag reitsins Aðalstræti 14-18 og Túngötu 2-4 með það að markmiði að byggingarnar á reitnum fengju heillegt yfirbragð og endurspegluðu sögu borgarinnar.