Suðurgata 2 (Dillonshús)

Mynd fornleifanefnd.is

Dillonshús er heiti á húsi sem stóð á horni Túngötu og Suðurgötu á svokölluðu Ullarstofutúni sem kennt var við eitt af húsum Innréttinganna. Húsið reisti írsk-enski lávarðurinn Arthur Edmund Dillon-Lee (1812-1892) árið 1835 fyrir sig og ástkonu sína Sire Ottesen (Sigríði Elísabetu), dóttur Þorkels Guðmundssonar Bergmann sem um skeið var forstjóri Innréttinganna. Húsið gekk einnig undir nöfnunum Ottesenshús og Melsteðshús. Húsið en var flutt í Árbæjarsafn árið 1961.

Forboðin ást

Ástarsaga Dillons og Sire vakti mikla athygli og afar sterk viðbrögð hér á landi sem og í ranni lávarðarins sem setti sig alfarið upp á móti hjónabandi þeirra. Hann var 22 ára af aðalsættum en hún var fráskilin stórglæsileg 35 ára kona sem hafði eignast börn með þremur mönnum og verið dæmd fyrir hórdóm. Þau eignuðust dótturina Henriettu árið 1835 en þegar Kansellíið og kaþólska kirkjan höfðu synjað þeim um leyfi til að giftast gáfust þau upp og hann snéri aftur til Englands. Áður en Dillon yfirgaf landið ritaði hann erfðaskrá sem fannst í peningaskáp í fjármálaráðuneytinu um miðja 20. öldina. Henrietta, dóttir Dillons og Sire, giftist dönskum kaupmanni, Peder Ludvig Levinsen að nafni, árið 1862 og eignaðist með honum tvö börn. Hún lést í Reykjavík árið 1885 en ekkert er vitað afdrif afkomenda hennar. Þeirri spurningu var reynt að svar í grein í Mbl árið 1962 en án árangurs.

Gistihúsarekstur Sire

Sire hélt húsinu og rak þar veitingasölu og skemmtistað í mörg ár en snéri sér svo í auknum mæli að útleigu herbergja. Meðal þekktra leigjanda hjá Sire var Jónas Hallgrímsson skáld en hann bjó í Dillonshúsi síðasta vetur sinn á Íslandi, 1841-1842. Þá bjó Benedikt Sveinbjarnarson Gröndal í húsinu á árunum 1852-1857 eða þar til hann snéri hann til Kaupmannahafnar til frekara náms.

Vísir að kvennaskóla

Systurnar Ágústa og Þóra Johnson ráku kvennaskóla í húsinu 1851-1853. Sá skóli hætti vegna fjárskorts en síðar stofnaði Þóra Kvennaskólann í Reykjavík með manni sínu Páli Melsteð sagnfræðingi, syni Páls Melsteðs amtmanni á Möðruvöllum.

Harmleikur í Dillonshúsi

Árið 1953 átti sér stað mikill harmleikur í húsinu þegar 35 ára gamall lyfjafræðingur varð sjálfum sér, eiginkonu sinni og þremur börnum að bana með eitri. Hann hafði átt við veikindi að stríða og í bréfi sem hann skildi eftir sig sagðist hann ekki hafa getað skilið fjölskyldu sína eftir.

Smella hér til að skoða götumynd á google.com

Skildu eftir svar