Dráttarbrautir fyrir báta í Vestmannaeyjum
Með auknum útvegi í kjölfar þeirra byltingar, sem varð í Eyjum með tilkomu vélbátanna á fyrstu áratugum 20. aldarinnar, varð veruleg vöntun á aðstöðu til þess að koma bátum á land til viðhalds og umsýslu. Ekki var lengur unnt að ýta þeim í hróf að loknum veiðiferðum eða geyma undir Skiphellum eins og gert var um aldir með árabátana. Bryggjupláss var lítið svo bátaflotann varð að geyma á milli veiðiferða úti á höfninni og festa við miklar keðjur, sem lagðar voru á sjávarbotninn. Þá varð sífellt erfiðara að hleypa vélbátunum á land til viðgerðar og viðhalds vegna stærðar og fjölda, en á því var mikil þörf m.a. vegna trémaðks, sem olli skemmdum á bátunum. Í þessu umhverfi var Dráttarbraut Vestmannaeyja stofnuð árið 1925, og henni valinn staður við Skildingafjöru, þar sem bátar voru nú dregnir með vélarafli upp á þurrt land.
Á næstu áratugum voru dráttarbrautir á þessum stað endurbættar og gátu að mestu þjónað Eyjaflotanum með viðgerðir og nýsmíði báta. Þó fór svo að lokum, að vaxandi bátastærð varð dráttarbrautunum ofviða sem og mikil fækkun í bátaflotanum og starfsemin þar lagðist af. Í dag er búið að fylla upp í gömlu brautirnar og búa til svæði, sem m.a. er eftirsótt til mannfagnaða af ýmsu tagi s.s. fyrir árlegar goslokahátíðir.