Skiphellar í Vestmannaeyjum

Skiphellar voru, eins og nafnið gefur til kynna, hellar fyrir skip, þar sem bátar Eyjamanna voru geymdir og lagfærðir a.m.k. á 19. öld og fram á þá 20. Undir Skiphellum voru þessir skútar kallaðir, en hátt berg slútir þar inn undir sig og myndar skjól fyrir regni og vindum. Minni bátar voru einkum færðir undir Skiphella, þar sem hægt var að dytta að þeim og gera þá klára fyrir næsta úthald. Sumir enduðu reyndar ævi sína þarna. Fram að aldamótunum 1900 voru bátar tjargaðir og síðar málaðir, og kunnir bátasmiðir, jafnvel fram í ættir, munduðu smíðatól sín undir Skiphellum og berum himni við viðgerðir og nýsmíði. Eftir aldamótin voru vélbátar smíðaðir þarna, en slík smíði færðist svo niður í fjöru. Engin merki eru í dag um þessa athafnasemi fyrri kynslóða, en erill ritunnar í berginu, sérstaklega um varptímann snemma vors, með tilheyrandi gargi og sprang Eyjapeyja fáeinum metrum sunnar koma í stað smíðahögga hins gamla handverks.

Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is

Skildu eftir svar