Lækurinn og Hrófin í Vestmannaeyjum

Lækurinn var helsta uppsátur áraskipa og mesta athafnasvæði Eyjamanna við sjávarsíðuna í 1000 ár. Nafnið var dregið af lækjum sem runnu í sjó fram undan klöppum við Strandveg. Ofar voru Hrófin, þar sem skipin voru geymd að veiði lokinni.  Allt er það nú horfið, klappir, klettar og leirur milli Nausthamars að austan og Stokkhellu að vestan, en bryggjur komnar í staðinn, Bæjarbryggja og Nausthamarsbryggja. Á gömlu árskipunum voru sjómennirnir mismargir um borð, og á stærri áttæringum var t.a.m. ekki talið hægt að hafa færri en 18 menn. Þegar skipin komu að Læknum að lokinni veiðiferð, var fiskurinn seilaður, þ.e. festur á sérstök bönd, og dreginn í land. Mynduðust stórar fiskhrúgur í klöppunum, þegar vel fiskaðist og iðandi mannlíf, sjómennirnir í skinnklæðum og þorpsbúar að taka við aflanum. Fyrr á öldum, s.s. á 15. og 16. öld, var gert að aflanum á klöppunum í fjörunni, hann síðan fluttur til þurrkunar í fiskigörðum ofar á eyjunni og seldur loks til útflutnings sem skreið. Á seinni hluta 18. aldar jókst hins vegar mjög saltfisksverkun og varð ráðandi vinnsluaðferð næstu tvær aldir fram á 20. öld. Þá var fiskurinn fluttur í lítil aðgerðarhús við flæðarmálið, krærnar, eftir að honum hafði verið skipt á milli skipverja. Konur sáu aðallega um fiskburðinn, en í krónum var fiskurinn svo verkaður.
Skipverjar hjálpuðust að við að setja skip sín upp og ganga frá þeim í Hrófunum, en það gat reynst hin mesta þolraun, þegar lágsjávað var. Töldu margir sjómenn að klukkutíma þrælabarningur á sjónum væri betri en fjörusetningur.

Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is

Skildu eftir svar