Engidalur í Vestmannaeyjum
Í Engidal við Brekastíg 15c hóf Andrés Gestsson (1917-2009), Andrés blindi, búskap ásamt eiginkonu sinni, Sigríði Jónsdóttur. Andrés settist að í Eyjum árið 1939 eftir að hafa komið þangað á vertíðir, þá fyrstu á 14. ári. Hann stundaði sjómennsku aðeins í nokkur ár eða allt til ársins 1943 og upplifði atburði með nokkurra ára millibili sem voru í senn einstakir og afdrifaríkir og vöktu þjóðarathygli. Þá varð Andrés fyrir líkamlegu áfalli, sem markaði líf hans fram til dauðadags.
Fróði
Á strîðsárunum var Andrés bátsverji á Skaftfellingi VE, sem sigldi með ísfisk til Bretlandseyja. Árið 1941 lögðu af stað frá Eyjum í eina slika ferð, Skaftfellingur og línuveiðarinn Fróði. Voru bátarnir i fyrstu í samfloti, en vegna vélarbilunar dróst Skaftfellingur aftur úr Fróða og náði honum ekki aftur fyrr en að kvöldi 17. mars. Hafði Fróði þá orðið fyrir skotárás þýsks kafbáts og var allt á tjá og tundri um borð. Margir bátsverjar voru helsárir eða látnir og hélt Skaftfellingur áfram til Bretlands eftir að hafa fylgt Fróða spölkorn eftir heim á leið og sent skeyti til Íslands um afdrif bátsins. Árásin a Fróða vakti mikla athygli, enda í fyrsta skipti sem íslenskur fiskibátur varð fyrir svo heiftarlegri árás. Þjóðin var harmi slegin og í Eyjum var tekið á móti Fróða af miklum mannfjölda á bryggjum og lúðrasveit lék þjóðsönginn og sorgarlög. Frá Eyjum sigldi Fróði svo til Reykjavikur með 5 líkkistur á dekki, allar sveipaðar íslenska fánanum. Voru móttökur í höfuðstaðnum á svipuðum nótum og í Vestmannaeyjum.
U-464
Ekki leið nema rúmlega eitt ár þar til Andrés Gestsson upplifði annan atburð, sem einnig vakti mikla athygli og sýndi hina hliðina á hörmungum heimsstyrjaldarinnar seinni. Enn var hann á siglingu milli Íslands og Bretlandseyja á Skaftfellingi og enn kom þýskur kafbátur við sögu. 20. ágúst 1942 varð Andrés ásamt öðrum bátsverjum þátttakandi í því að bjarga 52 mönnum af kafbáti Þjóðverja, U-464, sem maraði í hálfu kafi eftir loftárás frá amerískri flugvél. Tók 2-3 klukkustundir að ná Þjóðverjunum um borð og var mikil þröng á þingi í litlum fiskibát. Vélbyssa og riffill voru um borð sem voru til reiðu ef á þyrfti að halda, en samskiptin voru án nokkurra átaka og í vinsemd þar til tveir breskir tundurspillar sigldu til móts við Skaftfelling og sótti þýsku kafbátsmennina. Nokkrir eftirmálar urðu, þegar komið var til Bretlands en Skaftfellingur sigldi svo til baka til Íslands eftir einstaka björgun hjá íslenskum sjómönnum í miðri styrjöld. Atburður þessi gleymdist ekki því rúmlega hálfri öld síðar voru 2 bátsverjar á Skaftfellingi heiðraðir af Þjóðverjum fyrir “mannúðardáð” á tímum sem mótaðir voru af “áróðri og stríðsæsingi” samkvæmt orðalagi þeirra þýsku. Var Andrés annar þeirra. Íslenskir sjómenn höfðu svo sannarlega svarað “stríðsæsingi” og drápfýsn þýskra kafbátshermanna á Fróða af “mannúðardáð” með því að bjarga löndum þeirra rúmlega ári seinna!
Andrés blindi
Enn leið ár milli stórviðburða hjá Andrési en í þetta sinn varð hann fyrir áfalli sem setti á hann varanlegt, líkamlegt mark til æviloka og reyndar einnig á samfélagið allt í Eyjum. Andrés varð blindur í kjölfar þess að hann neytti áfengs drykkjar á þjóðhátíðinni 1943, en drykk þennan hafði rekið á land og neyttu hans ýmsir á hátíðinni. Reyndist mjöðurinn baneitraður og létust 9 manns í kjölfarið með miklum harmkvælum en aðrir sluppu, sumir með varanleg mein. Þessi atburður lagðist þungt á samfélagið í Eyjum, og margar fjölskyldur misstu þarna ástvini sína. Andrés varð sjálfur að aðlagast því að missa sjónina svo snögglega, en sjómennsku hans var þar með lokið. Hann reyndi að bjarga sér eins og hann gat, hnýtti króka og vann við netagerð áður en hann lærði bólstrun og stofnaði fyrirtæki í Varmadal við Skólaveg til þess að bjóða bæjarbúum þjónustu sína. Andrés lærði að nota staf til þess að rata um götur í miðbænum og fékk fljótlega viðurnefnið “blindi”, Andrés blindi. Andrés keypti lítið hús við Skólaveg 26, Bakkaeyri, og endurbyggði það að nokkru sjálfur…… án þess að sjá til verka! Kona hans lést árið 1958 og tveimur árum síðar flutti hann til Reykjavíkur ásamt börnum sínum, kvæntist að nýju og varð þekktur bólstrari og síðar nuddari í höfuðborginni. Sonur hans, Birgir, var 5 ára, þegar hann flutti úr Eyjum, en hann átti eftir að verða þekktur listmálari.