Faxastígur 2a í Vestmannaeyjum

Þórður Stefánsson (1924-2007) byggði Faxastíg 2a og bjó þar ásamt fjölskyldu sinni.  Faxastígur var fjölfarin gata í Vestmannaeyjum enda stóð kirkja hvítasunnumanna, Betel, við hana og dró til sín á samkomur safnaðarfólk og börn úr bænum m.a. sunnudögum.  Örfáum föðmum neðar, í miðri íbúabyggðinni og með guðshús innan seilingar, var óvenjuleg starfsemi í húsi Þórðar, í kjallara hússins, við gangstéttina, og vakti athygli vegfarenda.  Henni fylgdi vélarhljóð og varningur, sem gat fyllt stéttina, oft var opið inn, þar sem greina mátti mann með sólgleraugu á fullu við að framleiða fangalínur, bátatóg, en slíkar taugar voru m.a. notaðar til þess að festa báta og skip við bryggjur.  Þórður missti sjónina á besta aldri, en hann hafði verið sjómaður, skipstjóri og útgerðarmaður fram að því, m.a. einn þeirra sem beitti sér fyrir stofnun Vinnslustöðvarinnar og frumkvöðull að humarveiðum við eyjar.  Hann lærði að vinna við vélbúnað sem bróður hans og fleiri velvildarmenn hönnuðu, endurnýtti netriðla frá útgerðinni í Eyjum og bjó til verðmæti sem hann skilaði svo til baka tl hennar og seldi víða um land. Starfsemi Þórðar var einstök í Eyjum vegna þrautseigju, sjálfsbjargarviðleitni og hugvitssemi þeirra, sem næst honum stóðu.  Engar stofnanir tóku Þórð upp á arma sína, frumkvæðið var hans og einstaklinganna í kringum hann.  Saga Þórðar er dæmi um samfélag sem einkenndist af samstöðu og samhjálp, þegar á reyndi, og útgerðarmenn voru samtaka um að styðja og gera blindum manni fært að stunda atvinnu sína heima við og þar með afla sér og fjölskyldu sinni lífsviðurværis.  Ýmsir sóttu í vinnu til Þórðar, sem stóðu e.t.v. höllum fæti og var hann mest með 17 manns þar sem hver og einn var ráðinn á eigin forsendum. Blómaskeið í framleiðslu Þórðar á fangalínum var 7. áratugurinn og fram á þann 8., eða til ársins 1984. Þórður átti síðar eftir að starfa í kertaverksmiðju í Eyjum, sem var fyrsti og eini stofnanavæddi, verndaði vinnustaðurinn á staðnum.

Smelltu hér til þess að sjá götumynd á já.is

Skildu eftir svar