Hlíðarhús í Vestmannaeyjum
Verslunarrekstur
Í Hlíðarhúsi bjó Gísli Stefánsson með fjölskyldu sinni, en hann var fæddur 28. ágúst 1842. Gísli var frumkvöðullg að ýmsu í Vestmannaeyjum á seinni hluta 19. aldar. Hann rak eigin verslun frá 1881 og ruddi þar með brautina fyrir innlendan verslunarrekstur í Eyjum sem keppti við einokun danskra selstöðukaupmanna. Gísli hélt utan til Englands til þess að kaupa vörur fyrir eyjaskeggja og flutti inn nýstárlegan varning, sem reyndist hið mesta þarfaþing.
Handvagnar og bárujárn
Meðal þess sem Gísli flutti inn frá Englandi um 1895 var handvagn, og var hann einn af þeim fyrstu, sem kom til Eyja, en Framfarafélag Vestmannaeyja mun hafa keypt fyrsta vagninn ári áður. Handvögnum fjölgaði hins vegar hægt, þar sem vegaleysur voru miklar á Heimaey. Fljótlega á nýrri öld urðu vagnarnir þó meira áberandi með bættri vegagerð m.a. við höfnina, þar sem fluttur var fiskur í þeim s.s. frá Bæjarbryggjunni í lítil aðgerðarhús, Pallana. Þá voru fiskafuðir eins og lifur fluttar á handvögnum m.a. vestur íbræðsluskúra, þar sem hún var brædd. Handvagninn varð ómissandi atvinnutæki í Eyjum á fyrstu áratugum nýrrar aldar, 1910-1930, þegar bílar leystu hann smám saman af hólmi. Gísli í Hlíðarhúsum kom með fleiri nýjungar til Eyja, s.s. bárujárnið, sem reyndist afar vel sem klæðning á veggi og þök húsa. Handvagninn er löngu horfinn af götum og stígum Heimaeyjar, en bárujárnið hefur reynst lífsseigara og gegnir víða enn sínu upprunalega hlutverki.
Íþróttaarfleið
Synir Gísla Stefánssonar voru Ágúst og Stefán Gíslasynir, sem klifu Eldey eins og frægt var árið 1894, þegar fjallaklifur þótti mikil íþrótt og aðeins á færi afburðarmanna. Þá var séra Jes Gíslason einnig sonur Gísla, en sonur Jes var Friðrik, margfaldur Íslandsmeistari í frjálsum íþróttum, Ólympíufari 1936 og fræknasti íþróttamaður eyjanna á fyrri hluta 20. aldar. Langalangafabarn Gísla er núverandi landsliðsmarkvörður Íslendinga í handbolta, Viktor Gísli Hallgrímsson.
Listakonan Jóhanna Bogadóttir
Hlíðarhús við Miðstræti 5b varð síðar heimili Jóhönnu Bogadóttur, myndlistarmanns, en hún er fædd í Vestmannaeyjum 8. nóvember 1944. Jóhanna fór ung til náms á fasta landið, nam myndlist í Reykjavík en hélt svo utan til frekara náms í Svíþjóð, París og víðar. Hún hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum víða um heim. Jóhanna er sonarsonardóttir Gísla Stefánssonar.
Hlíðarhús var rifið árið 1978, en það stóð norðan við núverandi Hótel Vestmannaeyja við Vestmannabraut.