Hrísey á Eyjafirði
Hrísey er eyja í utanverðum Eyjafirði á móts við Dalvík. Eyjan er um 8 km2 að stærð og er því næst stærsta eyja Íslands. Byggðin í Hrísey heyrir undir Akureyrarkaupstað og þann 1. janúar 2014 voru 166 íbúar skráðir í eynni. Eyjan hefur verið í byggð frá landnámsöld en eyjuna nam Hríseyjar-Narfi Þrándarson sem lesa má um í Landnámu og Víga-Glúms sögu.
Hákarla-Jörundur
Árið 1862 flutti til eyjarinnar maður að nafni Jörundur Jónsson (1826-1888), betur þekktur sem Hákarla-Jörundur. Hafði koma hans til eyjarinnar mikil áhrif á líf eyjarskeggja. Í Hrísey byggði Jörundur upp mikla hákarlaútgerð, fyrst með skipi sínu Hermóði en síðar með skipunum Jörundi og Margréti en hákarlaveiðar blómstruðu víða um land á 19. öld vegna mikilar eftirspurnar eftir hákarlalifur. Í Hrísey byggði Jörundur sér hús á árununum 1885-86 úr timri úr norskum skipum sem fórust við Hrísey í aftakaveðri þann 11. september 1884. Húsið sem er elsta húsið í Hrísey og stendur við Norðurvegi 3 er í dag safn sem helgað er hákarlaveiðum Hríseyinga.
Einangrunarstöð
Einangrunarstöð fyrir Galloway holdanaut var rekin í eynni frá 1975 til 2015. Á tímabili var einnig rekin einangrunarstöð fyrir gæludýr sem flutt voru til landsins.
Gróður- og fuglalíf
Norðurhluti eyjarinnar er á náttúruminjaskrá vegna fjölskrúðugs gróður og fuglalífs. Þann 7. desember 2009 birtist í Morgunblaðinu frétt þess efnis að Alaskalúpína, Skógarkerfill og Ætihvönn ógni gróðurfari í eynni og var ástæðan meðal annars rakin til þess að árið 1947 hefði sauðfjárbeit lagst af í Hrísey. Hér má lesa þessa grein.