Ingólfsstræti 21 í Reykjavík
Við Ingólfsstræti 21 stendur fyrsta steinsteypta íbúarhúsið í Reykjavík, byggt árið 1903 af dönskum iðnaðarmönnum. Fyrsta steinsteypta húsið í Reykjavík var hins vegar fjós barónsins á Hvítárvöllum við Barónsstígsem sem steypt var árið 1899 (lesa má um fjós barónsins í færslunni Barónsstígur 4). Um fyrsta íbúðarhúsið í Reykjavík sem byggt var úr hlöðnu íslensku grjóti má lesa í færslunni Bankastræti 3.
Síldarspekúlantinn Óskar Halldórsson
Fyrsti eigandi hússins var Halldór Þórðarson, forstjóri og eigandi Félagsprentsmiðunnar en sá sem lengst bjó hér var útgerðarmaðurinn og síldarspekúlantinn Óskar Halldórsson (1893-1953) frá Akranesi, fyrirmynd Halldórs Laxness að Íslands-Bersa í Guðsgjafaþulu. Óskar Halldórsson gaf íslenska ríkinu vaxmyndasafn til minningar um son sinn, Theódór, sem fórst með skipi Óskars, línuveiðaranum Jarlinum, árið 1941. Þýskur kafbátur sökkti Jarlinum þann 5. september um 200 sjómílur norðvestur af Stornoway í Skotlandi á leið hans frá Fleetwood til Vestmannaeyja.
Kevin Stanford kaupir húsið
Árið 2005 keyptu breski fjárfestirinn Kevin Stanford, stofnandi tískuvörukeðjunnar Karen Millen, og þáverandi sambýliskona hans, Katla Guðrún Jónasdóttir, húsið.