Jaðar í Vestmannaeyjum

Húsið Jaðar, Vestmannabraut 6, stendur við jaðar hraunsins úr Heimaeyjargosinu 1973 og ber því nafn með réttu, þótt sá, sem fyrstur bjó þar, Matthías Finnbogason, hafi nú ekki séð þá tengingu fyrir, þegar hann reisti húsið árið 1907. Í kjallaranum varð til fyrsta vélaverkstæðið í Eyjum um áramótin 1908/ 1909, en eigandinn hafði reyndar tekið fyrstu sporin í vélaviðgerðum nokkru fyrr í húsi við næstu götu. Þetta verkstæði svaraði brýnni þörf hjá vaxandi bátaflota Eyjamanna, sem vélvæddist óðum í upphafi nýrrar aldar. Á fáum árum höfðu háværir vélaskellir tekið yfir áragjálfur og seglaþyt forveranna, en vélarnar komu bátunum lengra á miðin en áður og á skemmri tíma þannig að ávinningurinn var mikill. Í fyrstu kunnu menn lítið á þessa „mótora“, en með tilkomu verkstæðis á Jaðri og fleiri slíkra á næstu árum varð til þekking á vélaviðgerðum, sem fleytti vélvæðingu bátaflotans í Eyjum áfram á áður óþekkt mið.

*

Um 1930 flutti í Jaðar Jónas Þórir Dagbjartsson, síðar kunnur tónlistarmaður, og ólst hann þar upp. Sonur Jónasar, einnig þekktur tónlistarmaður, er Jónas Þórir.

Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is

Skildu eftir svar