Laugarnes í Reykjavík

Holdsveikraspítalinn í Laugarnesi

Laugarnes er heiti á nesi norður af Laugardalnum í Reykjavík sem fyrst er getið í Njáls sögu. Um tíma var hér biskupssetur og holdsveikraspítali. Í dag (2018) er hér listasafn Sigurjóns Ólafssonar og heimili skáldsins og leikstjórans Hrafns Gunnlaugssonar. Árið 1989 gaf ekkja Sigurjóns, Birgitta Spur, sjálfseignarstofnun safnið og fjölda annnarra muna sem tilheyrt höfðu listamanninum. Árið 2012 var safnið afhent Listasafni Íslands sem rekið hefur það síðan. Í yfir 20 ár hefur Hrafn Gunnlaugsson átt í deilum við borgaryfirvöld um lóðamörk og framkvæmdir í kringum heimili hans á Laugarnesinu.

Stórbýli á söguöld

Laugarnes var eitt af fystu stórbýlunum  á höfuðborgarsvæðinu en í Njálu segir að bræðurnir Þórarinn, Ragi og Glúmur á Varmalæk eigi jörðina. Í kirknaskrá Páls biskups má sjá að kirkja var í Laugarnesi um 1200. Þá greinir Njála ennfremur frá því að Hallgerður Langbrók hafi eytt síðustu árum sínum í Laugarnesi en hún eignaðist jörðina eftir að Glúmur, annar eiginmaður hennar, var drepinn. Þar sem nú eru gatnamót Kleppsvegar og Laugarnesvegar var lengi vel þúst sem kölluð var Hallgerðarleiði og er það trú margra að þar hafi Hallgerður verið grafin. Þá er vitað að Margrét dóttir Vigfúsar Hólm hirðstjóra átti jörðina á seinni hluta 15. aldar en um Margréti má lesa í færslunum Möðruvellir í Eyjafirði, Spóastaðir og Hólar í Eyjafirði.

Biskupssetur og holdsveikraspítali (19. og 20. öld)

Á fyrri hluta 19. aldar varð Laugarnesið biskupssetur þegar Steingrímur biskup Jónsson flutti þangað í nýbyggða biskupsstofu. Hún reyndist hins vegar hin mesta hrákasmíð og var rifin þegar farið var að byggja holdsveikraspítalann í lok aldarinnar. Fram að því hafði starfsemi spítalans verið staðsett að Klausturhólum í Grímsnesi. Spítalinn var byggður fyrir danskt söfunarfé og var gjöf dönsku Oddfellowreglunnar til íslensku þjóðarinnar. Var húsið á þeim tíma það stærsta sem byggt hafði verið á Íslandi. Spítalinn var starfræktur á árunum 1898 til 1943 en þá yfirtók bandaríska hernámsliðið húsið. Þá höfðu þeir fáu holdsveikisjúklingar sem eftir voru verið fluttir á Kópavogshælið. Spítalinn brann stuttu seinna til kaldra kola.

Smella  hér til að skoða götumynd á google.com

Skildu eftir svar