Lifrarsamlagið í Vestmannaeyjum

Lifur

Árið 1924 var ár mikilla framkvæmda í Eyjum, þar sem stór hús risu, sem tengdust útgerð og fiskvinnslu. „Eilífð“ Gísla J. Johnsen var fullbúin þetta ár sem og þríhýsi Gunnars Ólafssonar & Co á Tangalóðinni, sem enn stendur. Þessi hús öll voru steinsteypt og stóðu sem hallir með króaþyrpingu „litlu“ útgerðanna á milli sín. Þá þegar var búið að stofna fiskimjölsverksmiðju, talsvert vestar og innar við höfnina sem gat tekið á móti sívaxandi fiskúrgangi frá stækkandi vélbátaútvegi Eyjamanna. Enn voru stór skref stigin, þegar Lifrarsamlag Vestmannaeyja var stofnað 1932 og valinn staður gegnt Fiskimjölsverksmiðju Vestmannaeyja. Með tilkomu Lifrarsamlagsins lögðust af allar smáu ylifrarbræðslurnar, og jókst þrifnaður verulega við það í hjarta bæjarins. Fyrirtækið varð eldsvoða að bráð árið 2009, en á rústum þess má sjá stóran ketil auk veggspjalds, þar sem saga Lifrarsamlagsins er rakin í texta og myndum.

Lýsi

Tengsl félagsins við yngri kynslóðir Eyjamanna urðu meiri en margra annarra fyrirtækja við höfnina. Um miðja 20. öldina lögðu nemendur Barnaskólans reglulega leið sína í Lifrasamlagið með miða í vasa og flösku í hendi. Miðinn var merktur Barnaskólanum og var ávísun á gulgljáandi lýsi, sem fyllti ílátið áður en haldið var heim. Framundan var matskeið af daunillum og bragðvondum vökva, að mati margra af yngri kynslóðinni, sem innbyrtur var daglega sem vörn gegn hvers kyns kvillum.

Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is

Skildu eftir svar